Franska tón­listar­konan Cécile Lacharme segir ís­lenskt tón­listar­líf gríðar­lega ó­líkt hinu franska og þar komi lista­manna­styrkir við sögu. „Það er gríðar­lega ó­líkt að starfa á Ís­landi og í Frakk­landi. Þar erum við svo lán­söm að vera með frönsku tón­listar­manna­launin sem tryggja inn­komu. Krafan með styrknum er að spila 43 gigg á hverju ári og þá fær maður peninga frá ríkinu,“ segir Cécile.

Cécile hefur styrkinn og nefnir að í vissu sam­hengi megi líkja starfi tón­listar­manna í Frakk­landi við venju­lega launa­vinnu. „Þú getur stólað á þennan pening mánaðar­lega og að mínu mati gerir þetta franska tón­listar­um­hverfið mun auð­veldara við­fangs,“ segir hún.

Tón­listar­fólk í tveimur störfum

Í fram­haldinu bendir Cécile á að lang­flestir ís­lenskir tón­listar­menn séu að minnsta kosti í tveimur störfum. „Vegna þess að það lifir enginn á tón­listinni einni saman, eins og ég skil það,“ segir hún.

Þá bendir Cécile á að það sé marg­falt ó­dýrara að lifa í Frakk­landi. „En á móti kemur að Ís­land er minna og þannig er auð­veldara að vekja á sér at­hygli.“ Hún segir annan kost við smæðina vera hversu mikið ís­lenskir tón­listar­menn styðji hver annan. „Í Frakk­landi erum við 67,5 milljónir sem gerir stöðuna að­eins flóknari,“ segir hún og hlær.

„Mér finnst magnað hvað bransinn er sterkur á Ís­landi miðað við hversu fáir lifa af honum en það sýnir hversu mikil ást­ríðan er í fólkinu. Sumir tón­listar­menn í Frakk­landi geta kannski orðið pínu­lítið latir,“ segir hún. Cécile nefnir einnig að erfitt sé að fá frönsku tón­listar­manna­launin en um leið og þau séu komin í höfn sé við­komandi með þau fyrir lífs­tíð. „Fólk frá öðrum stöðum glápir bara á mig þegar ég segi frá þessu, og segir að Frakk­land sé eins og al­gjör para­dís fyrir lista­menn.“

Bjóða Ís­lendingum til Nan­tes

L’Insti­tut français, Tón­listar­borgin Reykja­vík, franska borgin Nan­tes, Sendiráð Frakklands á Íslandi, ÚTÓN, Mengi í Reykja­vík og Trempo í Nan­tes bjóða upp á skipti­vinnu­dvöl fyrir tón­listar­fólk frá Reykja­vík og frönsku borginni Nan­tes í því skyni að byggja menningar­lega brú milli borganna tveggja.

Út­völdum ein­stak­lingi býðst að skapa tón­list í full­búnu hljóð­veri og æfinga­rými í þrjár vikur án kvaða um endan­lega út­komu.

Cécile var stödd hér á landi á dögunum í tengslum við slíka vinnu­stofu í Mengi. Hún vann meðal annars að verk­efni með ís­lenska tón­listar­manninum Snorra Hall­gríms­syni, sem vann með Ólafi Arnalds að tón­listinni í Broa­dchurch og hlaut fyrir það BAFTA-verð­launin.