Tónlistarhátíðin ErkiTíð hefst í dag. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 1994 og er því elsta raftónlistarhátíð landsins. Íslensk tónlist er í brennidepli á hátíðinni þar sem flutt eru fjörutíu íslensk verk fjögurra kynslóða raftónskálda.

Ferill Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds er í forgrunni á hátíðinni. Að sögn skipuleggjenda á Þorkell heiðurinn af fyrsta raftónlistarverki sem samið hefur verið á Íslandi auk fyrsta tölvutónverksins. Þá efna hátíðin og RÚV til tónverkasamkeppni fyrir ung tónskáld, þar sem þátttakendur semja ný verk með tengingu við Þorkel.

Í dag verður slegið upp svokölluðum maraþontónleikum í Mengi við Óðinsgötu, þar sem flutt eru sérvalin raftónlistarverk. Tónleikarnir standa frá 15.00 til miðnættis.

„Þar eru flutt íslensk verk frá 1959 til dagsins í dag. Þar verða um 20 verk frumflutt,“ segir Kjartan Ólafsson, tónlistarmaður og einn skipuleggjenda um dagskrána í Mengi. „Listamennirnir verða sumir á staðnum. Bæði eru þetta vídeóverk og hljóðverk og sum verkin eru fjölrása. Þetta er sett upp þannig að maður getur bara farið í tímavél til ársins 1975,“ segir Kjartan og hlær.

Að sögn Kjartans er ókeypis inn á flesta viðburði hátíðarinnar. „Þar er hægt að kynna sér íslenska raftónlist og tilraunatónlist sem á sínum tíma var líka svona framúrstefnutónlist.“

Ferill Þorkels Sigurbjörnssonar er í forgrunni á hátíðinni en hann á að sögn skipuleggjenda heiðurinn af fyrsta raftónlistarverkinu sem var á Íslandi.
Fréttablaðið/ArnþórBirkisson

Athygli vekur að engin verk eftir konur má finna á neinum dagskrárhluta, en elsta verkið eftir kvenskáld er Adagio eftir Karólínu Eiríksdóttur frá árinu 1992. „Konur komu seint inn í raftónlistina og ég held að þær séu komnar í meirihluta núna. Þetta var miklu meira kynjabundið áður fyrr. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands byrjaði voru þar mest karlmenn, en núna eru í meirihluta konur.“

Hátíðin var fyrst haldin árið 1994. „Hún var haldin svo til óslitin á tveggja ára fresti til ársins 2000,“ segir Kjartan. „Þá tók ég við sem formaður Tónskáldafélagsins og fékk þá eina hátíð, eða reyndar tvær. Ég fékk Myrka músíkdaga til að sjá um hana. Ég sá um Myrka músíkdaga í sautján ár ásamt fleirum og þegar það var búið tók ég upp þráðinn aftur. Nú er ErkiTíð sívaxandi hátíð sem vex með hverju árinu. Nú er unga fólkið að koma inn í þetta líka, sem kemur með sinn stíl og sinn tíma, sem er frábært.“

Kjartan segir nýbreytnina einkennast af fjölbreytni. „Það sem við sjáum fyrst og fremst er mun meiri fjölbreytni en hefur sést áður. Þar kemur unga fólkið sterkt inn. Það er ekki bundið við neinn stíl og er að móta sinn stíl. Einstaklingur sem listamaður er það mikilvægasta sem til er, með sinn persónulega stíl og sína tónlist, eins og við sjáum með þá þekktustu tónlistarmenn sem við eigum.“

Barnaóperan Robbi rafmagnsheili eftir Þorkel Sigurbjörnsson frá árinu 1968 er dagskrárliður á hátíðinni. Að sögn Kjartans á óperan alveg jafn sterkt erindi við almenning í dag og þegar hún var samin, ef ekki meira. Orðið rafmagnsheili er forveri orðsins tölva, og leitast verkið meðal annars við að finna nýtt orð yfir nýmælið sem rafheilarnir voru í þá daga. Kjartan segir Þorkel hafa séð fyrir hversu veigamikinn þátt tölvurnar áttu eftir að eiga í lífi fólks.

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á vefsvæðinu erkitid.is.