Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri er fé­lagi í The Tran­syl­vanian Socie­ty of Dracula, al­þjóð­legum að­dá­enda­klúbbi blóð­sugunnar frægu. Hann segir skemmti­lega sögu af því á Face­book hvernig hann var inn­li­maður í þetta al­þjóð­lega fé­lag vampíru­á­huga­manna.

Sagan hófst þegar Ás­geir rakst á lítið tætt kver í forn­bóka­verslun sem hét Makt myrkranna, ís­lensk þýðing á sögunni Drakúla eftir Bram Stoker. Makt myrkranna kom út sem neðan­máls­saga í ritinu Fjall­konunni á árunum 1899 til 1900.

Íslenski Drakúla er saurlífsseggur

„Það sló mig að Makt myrkranna var um margt ólík ensku út­gáfunni. Hinn ís­lenski Drakúla hefur pólítískan á­huga og vill ræða sósíal­isma og anark­isma. Hann kallar lýð­ræði „skríl­frelsi“ og undir­býr byltingu þar sem múgurinn á að vera „verk­færi í höndum þeirra sterku“,“ skrifar Ás­geir.

„Þá er ís­lenski Drakúla saur­lífs­seggur þar sem Makt myrkranna geymir ber­söglar lýsingar af vampýru-veislum þar sem mun fleira er gert en að sjúga blóð. Þá eru fram­sæknar kven­vampýrur á­berandi – sem hafa verið strokaðar út úr bresku út­gáfunni.“

Valdimar Ás­munds­son, eigin­maður Bríetar Bjarn­héðins­dóttur, þýddi söguna en hann var sjálf­menntaður bónda­sonur úr Þistil­firði. Ás­geir greinir frá því að síðar hafi alltaf verið gengið út frá því að Valdimar hefði sjálfur samið upp söguna í þýðingu og þannig fengið út­rás fyrir sína eigin óra. Makt myrkranna var meira að segja notuð við kennslu í Há­skólanum, sem dæmi um heims­bók­menntir sem hefði verið klúðrað í þýðingu. Hall­dór Lax­ness taldi þó að Valdimar hefði gert bókina betri.

„Mér fannst ó­lík­legt að Valdimar hafi haft tíma í amstri dagsins að endur­semja skáld­sögu í annars nafni. Þá hefur Makt myrkranna vísanir til London – sem að­eins stað­kunnugur maður gæti þekkt. Þá byrjar þýðingin á bréfi frá Bram Stoker. Ansi hefði Valdimar þurft að vera djarfur til þess að falsa undir­ritað bréf frá sjálfum höfundinum!“ skrifar Ás­geir.

Vakti athygli erlendis

„Á­hugi minn á Makt myrkranna stafaði þó af öðru: Drakúla er fyrsta skáld­saga sem er skrifuð sem dag­bók eða Journal – Eng­lendings sem sendur er til Tran­syl­vaníu og skráir niður allt sem hann sér og heyrir,“ heldur hann á­fram. „Til að gera langa sögu stutta – plataði ég út­gefanda til þess að endur­út­gefa Makt myrkranna árið 2011 með eftir­mála eftir mig. Kunni hann mér litlar þakkir fyrir. Bókin vakti enga at­hygli og seldist ekkert. Það verður að viður­kennast - ég er bara hag­fræðingur og á engin ítök í bók­mennta­heiminum.“

Út­gáfan vakti þó nokkra athygli er­lendis og hafði maður að nafni Han de Roos sam­band við Ás­geir. Roos lagðist í mikla rann­sóknar­vinnu til að sanna að Makt myrkranna sé í raun og veru eldri og erótískari Drakúla. „Hvernig Valdimar komst yfir þessa fyrri út­gáfu - er mun lengra mál en rými er til að fjalla um hér. Hans de Roos lét síðan þýða bókina aftur yfir á ensku og gefa út hjá virtri út­gáfu 2017 í New York undir nafninu „Powers of Dark­ness: The Lost Version of Dracula“. Í kynningu er talað um „incredi­ble literary discovery“... „that will amaze and en­tertain legions of fans of Got­hic litera­ture, horror, and vampi­re fiction.““

Roos þessi gerði Ás­geir síðan að fé­laga númer 1014 í að­dá­enda­klúbbi Drakúla og voru það hans verð­laun fyrir að hafa komið Makt myrkranna aftur á fram­færi. Sjálfur segist Ás­geir ekki hafa tekið þátt í störfum klúbbsins heldur að­eins fengið skír­teinið sent heim í pósti.

Ég er félagi í The Transylvanian Society of Dracula – sem er alþjóðlegur aðdáendaklúbbur hinnar frægu blóðsugu. Hvernig...

Posted by Ásgeir Jónsson on Sunday, 13 December 2020