Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er félagi í The Transylvanian Society of Dracula, alþjóðlegum aðdáendaklúbbi blóðsugunnar frægu. Hann segir skemmtilega sögu af því á Facebook hvernig hann var innlimaður í þetta alþjóðlega félag vampíruáhugamanna.
Sagan hófst þegar Ásgeir rakst á lítið tætt kver í fornbókaverslun sem hét Makt myrkranna, íslensk þýðing á sögunni Drakúla eftir Bram Stoker. Makt myrkranna kom út sem neðanmálssaga í ritinu Fjallkonunni á árunum 1899 til 1900.
Íslenski Drakúla er saurlífsseggur
„Það sló mig að Makt myrkranna var um margt ólík ensku útgáfunni. Hinn íslenski Drakúla hefur pólítískan áhuga og vill ræða sósíalisma og anarkisma. Hann kallar lýðræði „skrílfrelsi“ og undirbýr byltingu þar sem múgurinn á að vera „verkfæri í höndum þeirra sterku“,“ skrifar Ásgeir.
„Þá er íslenski Drakúla saurlífsseggur þar sem Makt myrkranna geymir bersöglar lýsingar af vampýru-veislum þar sem mun fleira er gert en að sjúga blóð. Þá eru framsæknar kvenvampýrur áberandi – sem hafa verið strokaðar út úr bresku útgáfunni.“
Valdimar Ásmundsson, eiginmaður Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, þýddi söguna en hann var sjálfmenntaður bóndasonur úr Þistilfirði. Ásgeir greinir frá því að síðar hafi alltaf verið gengið út frá því að Valdimar hefði sjálfur samið upp söguna í þýðingu og þannig fengið útrás fyrir sína eigin óra. Makt myrkranna var meira að segja notuð við kennslu í Háskólanum, sem dæmi um heimsbókmenntir sem hefði verið klúðrað í þýðingu. Halldór Laxness taldi þó að Valdimar hefði gert bókina betri.
„Mér fannst ólíklegt að Valdimar hafi haft tíma í amstri dagsins að endursemja skáldsögu í annars nafni. Þá hefur Makt myrkranna vísanir til London – sem aðeins staðkunnugur maður gæti þekkt. Þá byrjar þýðingin á bréfi frá Bram Stoker. Ansi hefði Valdimar þurft að vera djarfur til þess að falsa undirritað bréf frá sjálfum höfundinum!“ skrifar Ásgeir.
Vakti athygli erlendis
„Áhugi minn á Makt myrkranna stafaði þó af öðru: Drakúla er fyrsta skáldsaga sem er skrifuð sem dagbók eða Journal – Englendings sem sendur er til Transylvaníu og skráir niður allt sem hann sér og heyrir,“ heldur hann áfram. „Til að gera langa sögu stutta – plataði ég útgefanda til þess að endurútgefa Makt myrkranna árið 2011 með eftirmála eftir mig. Kunni hann mér litlar þakkir fyrir. Bókin vakti enga athygli og seldist ekkert. Það verður að viðurkennast - ég er bara hagfræðingur og á engin ítök í bókmenntaheiminum.“
Útgáfan vakti þó nokkra athygli erlendis og hafði maður að nafni Han de Roos samband við Ásgeir. Roos lagðist í mikla rannsóknarvinnu til að sanna að Makt myrkranna sé í raun og veru eldri og erótískari Drakúla. „Hvernig Valdimar komst yfir þessa fyrri útgáfu - er mun lengra mál en rými er til að fjalla um hér. Hans de Roos lét síðan þýða bókina aftur yfir á ensku og gefa út hjá virtri útgáfu 2017 í New York undir nafninu „Powers of Darkness: The Lost Version of Dracula“. Í kynningu er talað um „incredible literary discovery“... „that will amaze and entertain legions of fans of Gothic literature, horror, and vampire fiction.““
Roos þessi gerði Ásgeir síðan að félaga númer 1014 í aðdáendaklúbbi Drakúla og voru það hans verðlaun fyrir að hafa komið Makt myrkranna aftur á framfæri. Sjálfur segist Ásgeir ekki hafa tekið þátt í störfum klúbbsins heldur aðeins fengið skírteinið sent heim í pósti.
Ég er félagi í The Transylvanian Society of Dracula – sem er alþjóðlegur aðdáendaklúbbur hinnar frægu blóðsugu. Hvernig...
Posted by Ásgeir Jónsson on Sunday, 13 December 2020