„Séð og Heyrt er að lifna við á ákveðinn hátt, ekki tímaritið sem slíkt, heldur nýtt efni í anda Séð og Heyrt ásamt því að við rifjum upp eldra efni,“ segir Ragna Gestsdóttir hjá Mannlífi.

Í nýjasta tölublaði Mannlífs var síða tileinkuð tímaritinu Séð & Heyrt sem kom út á árunum 1996 til 2016.

Skjáskot af vef Mannlífs.

Ragna segir að svo verði framvegis sem og að Séð og Heyrt verður undirsíða á vef Mannlífs.

Séð og Heyrt er ekki aðgengilegt í gegnum timarit.is. Eins og staðan er í dag þarf að leita á biðstofum eða á hillum landsmanna til að rifja upp um hvað var slúðrað hér á árum áður. Ragna segir að eldra efni verði gert aðgengilegt á vefnum.

„Tímaritin eru einstakt safn og yfirlit yfir skemmtana- og menningarlíf, tísku og tíðaranda, ástir og örlög, atvinnu og viðfangsefni fjölda Íslendinga, þjóðþekktra sem annarra,“ segir Ragna.

Hún sjálf vann á Séð og Heyrt á tímabili. „Þá komst ég að því að fáir sögðust lesa blaðið, en ef okkur urðu á mistök þá kom í ljós að „allir“ lásu blaðið,“ segir hún og hlær. „Það er staðreynd að fólk vill lesa um fólk, við erum forvitin um menn og málefni og hvað annað fólk, sérstaklega fræga fólkið, er að fást við.“