Secret Solstice sem var á dagskrá dagana 26. til 28. júní í sumar hefur verið frestað. Ákveðið hefur verið að hátíðin fari þess í stað fram dagana 25. til 27. júní 2021.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en til þess að tryggja bæði heilsu og öryggi gesta ásamt því að hámarka upplifun þeirra sem koma á hátíðina þá töldum við engan annan kost vera í stöðunni,“ segir í tilkynningu sem forsvarsmenn hátíðarinnar sendu frá sér í dag.

„Allir miðar keyptir á Secret Solstice 2020 munu sjálfkrafa gilda á frestaða hátíð 2021. Miðsölufyrirtæki hátíðarinnar mun á næstu dögum hafa samband við alla miðakaupendur og bjóða þeim sem vilja endurgreiðslu. Við biðjum fólk að sýna biðlund þó að einhverjir dagar líði þar til haft verður samband,“ segir enn fremur.

Flest af þeim stóru númerum sem boðað höfðu komu sína á hátíðina í sumar til að mynda Cypress Hill, Primal Scream, Blackbear, Lil Pump, Regard, Alma, Ensími, Nýdönsk, Krummi, Jói Pé og Króli hafa samþykkt að koma fram á hátíðinni næsta sumar. Vinna stendur nú yfir við að bóka fleiri atriði á hátíðina.