Leikarinn og fyrrum ríkisstjórinn Arnold Schwarzenegger var í bílslysi í Los Angeles seint í gærkvöldi. Í erlendum miðlum kemur fram að alls hafi fjórir bílar verið í árekstrinum og að einn hafi slasast og verið fluttur á slysadeild, en ekki í lífshættu.
Myndir af vettvangi sýna svartan jeppa sem er ofan á tveimur minni bílum á gatnamótum í Brentwood hverfinu. Leikarinn sést standa nærri bílunum á myndunum.
Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að lögreglan hafi ekki handtekin neinn og að þau hafi útilokað notkun vímuefna eða áfengis hjá ökumönnum.
Talsmaður Schwarzenegger hefur staðfest að hann ók svarta jeppanum sem sást á myndunum þegar slysið átti sér stað. Þá sagði hann Schwarzenegger heilan á húfi og að hann hafi rætt við bæði lögreglu og manneskjuna sem slasaðist í slysinu.