Daði Freyr Ragnarsson hefur undanfarin fjögur ár gefið út tónlist undir nafni Dadykewl. Hann gefur í dag út lagið Voulez-Vous með Svölu Björgvinsdóttur og Helga B. Daði er búsettur í Kaupmannahöfn og finnst hann vera búinn að þroskast frá listamannsnafninu. Núna er hann bara Dady.

„Þetta byrjaði á því að ef ég var uppnefndur eða kallaður eitthvað annað en Daði þá hljóp fólk oftast í „daddy cool“. Ég sat svo einn daginn og var að búa til Spotify-reikning með sirka þrjá hlustendur mánaðarlega og skaut bara á þetta. Smá „fokk jú“-putti á fólk sem kallaði mig „daddy cool“ í æsku. Ég bjóst aldrei við því að einhver myndi vilja hlusta á tónlistina mína og hvað þá að ég yrði í þessari stöðu sem ég er í dag,“ segir Daði Freyr.

Hann segist hafa þroskast mikið þegar það kemur að tónlistarsköpun.

„Tónlistin sem ég er að semja núna á svo miklu betra skilið en að standa undir nafni með orðinu „kewl“ í sér. Ég var líka orðinn mjög þreyttur á að stafa nafnið fyrir fólk sem hafði aldrei heyrt um mig áður og ákvað að létta aðeins á nafninu,“ segir hann.

Engin U-beygja

Fyrir Daða var það strax ljóst hvert nýja listamannsnafnið skyldi vera.

„Ég heiti Daði og bý í Danmörku og er kallaður Dady hérna, af kennurum mínum, samstarfsmönnum og svo heiti ég það líka í augum stjórnvalda. Ég vildi líka ekki taka einhverja bilaða U-beygju fyrir fólk sem hlustar á mig, svo það gæti nú fundið mig.“

Hann segist lengi vel hafa óttast að breyta listamannsnafninu.

„Ég var skíthræddur um að týnast í völundarhúsinu sem internetið er og missa alla hlustendur mína.“

Daði spilaði á trompet í æsku.

„Síðan færðist ég yfir í tölvutónlist, þegar ég heyrði Alive 2007 með Daft Punk í fyrsta skipti.“

En hefur þú alltaf verið tónelskur?

„Ég fer og fór ekki í sturtu án þess að syngja.“

Daði er í hljómsveitinni Samasem með Marteini Hjartarsyni.

„Ég og Marteinn Bngrboy slógum saman járnum árið 2016 og unnum plötuna Hrjúft silki saman. Samasem er í dag í smá pásu vegna þess að við erum staddir sitt á hvorum staðnum á jörðinni sem hentar ekki alveg tónlistarsköpun okkar.“

Ný plata

Daði er núna að vinna í nýrri plötu sem hefur fengið heitið Hvítir hrafnar.

„Á henni reyni ég að sauma fyrir gömul sár í staðinn fyrir að vera alltaf að strá salti í þau. Það er oft þannig að einu minningarnar sem maður man eru þær slæmu. Þess vegna hef ég sett mér þá reglu að reyna að muna héðan í frá bara góðu minningarnar. Að búa í Danmörku gefur manni mikinn tíma til naflaskoðunar,“ segir hann.

Daði segir það erfitt að ræða nákvæmlega um hver þau flóknu viðfangsefni sem hann er að reyna að takast á við með gerð plötunnar nákvæmlega séu.

„Þetta er byggt á hlutum sem mér finnst mjög erfitt að tala um. Ég trúi að list eigi stundum, ef ekki alltaf, að vera þannig. Fólk verður síðan bara að rýna í textana til að finna þessi gömlu sár,“ segir hann.

Hvaðan kemur nafnið Hvítir hrafnar?

„Þetta kemur frá orðasambandinu „sjaldséðir hvítir hrafnar“, það er orðrómur um að þeir séu drepnir við fæðingu út af því að þeir eru öðruvísi. Sjónarhorn plötunnar er eins og maður sé venjulegur í mjög skrítnum heimi, eins og þessum hröfnum mögulega líður. Hrafnar eru með gott skopskyn líka, mér líkar almennt mjög vel við hrafna,“ segir hann.

Svala svölust

Sjálfur er hann með eigin lausn á þeim vandamálum sem hann upplifir.

„Ég sem tónlist og ákveð síðan þegar ég er búinn með lagið að málið sé leyst og held síðan blindur áfram út í lífið til að gera sömu mistök aftur og aftur,“ segir Daði.

Það var enginn spurning hjá Daða og Helga að Svala væri sú rétta til að syngja með í Voules-Vouz.

„Svala er ein besta söngkona Íslands og sjúklega svöl. Ég lít upp til hennar, og hennar ferils. Það að hún vildi vera með mér og Helga í þessu lagi er mikill heiður.“

Voulez-Vous er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.