Eva Rún Snorradóttir vann Góða ferð inn í gömul sár þegar hún var eitt af leikskáldum Borgarleikhússins og segir hún hugmyndina hafa kviknað þegar hún sá þátt í sjónvarpsseríunni Svona fólk sem tileinkaður var HIV-faraldrinum.
„Ég held að ég hafi ekki verið ein um það að fyllast af einhverjum eldmóði. Ég held að allir hafi bara fengið marglaga sjokk. Þetta var svo magnaður þáttur og ég fékk bara rosalegt sjokk af því að hafa vitað svona lítið um þetta. Þó að ég hafi verið of lítil til að upplifa þetta, ég var bara eins árs þegar fyrsta HIV-smitið greindist á Íslandi, og þó að ég sé ekki hommi þá er þetta bara svo mikil hinsegin saga, saga okkar réttinda og okkar fólks,“ segir hún.
Fórstu í mikla rannsóknarvinnu á HIV-faraldrinum og þessu tímabili?
„Já, megnið af Covid-faraldrinum sat ég og las um alnæmisfaraldurinn. Þetta voru rosalega skrýtnir tímar. Að fara í fyrsta skipti í heimsókn til HIV Ísland í þeirra húsnæði með grímu á hápunkti Covid var rosalega einkennilegt.“
Megnið af Covid-faraldrinum sat ég og las um alnæmisfaraldurinn. Þetta voru rosalega skrýtnir tímar.
Þaggað niður
Eva Rún segir margt hafa komið sér á óvart þegar hún kynnti sér HIV-faraldurinn á Íslandi og þá einna helst hversu mikil áhrif hann hafði á allt samfélagið.
„Maður vissi að það hefðu verið fordómar, maður vissi að þessir menn hefðu staðið einir en stærðin á því öllu kom mér svo ótrúlega mikið á óvart. Hvernig var að vera heilbrigðisstarfsmaður á þessum tímum, ég hafði ekki sett mig inn í þá sögu og afleiðingarnar af faraldrinum. Það var bara í raun mjög skammarlegt hvað ég vissi lítið en það er ekki bara mitt heldur hefur bara ótrúlega lítið verið talað um þetta. Það er bæði líklega vegna þess að sárin eru enn þá svo stór og hafa enn ekki gróið en það helst náttúrlega í hendur við að það hefur ekkert verið fjallað um þetta, það hefur aldrei komið nein afsökunarbeiðni frá yfirvöldum og það er bara pínu þaggað niður,“ segir hún.
Eva Rún bætir því við að HIV-faraldurinn hafi verið mikið áfall fyrir samfélagið, en hafi þó ekki verið meðhöndlaður sem slíkt auk þess sem HIV er enn til staðar og fordómarnir sömuleiðis.
Flókið og margradda verk
Á ferli sínum sem sviðslistakona hefur Eva Rún sérhæft sig í þátttökuverkum, meðal annars með sviðslistahópunum Kviss Búmm Bang og 16 elskendum. Að sögn Evu sver Góða ferð inn í gömul sár sig í ætt við verk þessara hópa en það er tvískipt og samanstendur annars vegar af hljóðverki sem áhorfendur hlusta á í einrúmi og hins vegar af samverustund sem áhorfendur mæta á í Borgarleikhúsinu.
„Þetta er svo gígantískt efni að það er ekki hægt að afgreiða það með einhverju einföldu, einróma verki. Þetta er svolítið flókið, krefjandi og margradda. Fólk fær fyrsta hlutann sendan heim til sín með tölvupósti og mjög skýrar leiðbeiningar og hlustar í öruggu rými á heimildapartinn af þessu, sem er klukkutíma langt hljóðverk. Það eiga allir áhorfendur að hlusta á sama tíma og svo á fólk að mæta niður í Borgarleikhús klukkan 8. Þar verður stund þar sem fólk úr hinseginsenunni er búið að taka yfir Nýja sviðið,“ segir hún.
Eva Rún bætir því við að þátttaka áhorfanda sé ekki krefjandi, heldur sé þetta upplifunarverk. Góða ferð inn í gömul sár sameinar þannig margar ólíkar tilfinningar og upplifanir um sögu HIV-faraldursins og sögu hinsegin fólks á Íslandi.
„Þetta er samvera og það er mikil gleði og partí en frá því að ég fór að vinna verkið hefur komið bakslag í réttindum samkynhneigða. Þannig að við erum ekki bara að fagna heldur er margt sem þarf að skoða. Þetta er ekki bara gleðipartí en er það samt líka. Við fögnum þeim sem koma á verkið, áhorfendur eru okkar fólk þannig að við erum þarna saman að heiðra lífið,“ segir Eva Rún.
Að sökkva sér niður í þetta efni er bara mjög átakanlegt. Það þarf að fara mjög varfærnislega að því og það tekur á alla sem upplifðu þessa tíma að tala um þá.
Ekki hrifin af léttmeti
Tók það á þig tilfinningalega að vinna verkið?
„Já, það tók á mig. Að sökkva sér niður í þetta efni er bara mjög átakanlegt. Það þarf að fara mjög varfærnislega að því og það tekur á alla sem upplifðu þessa tíma að tala um þá. Það er alveg sama hversu náinn aðstandandi, hversu mikið viðkomandi var í baráttunni eða hvort hann var hjúkrunarfræðingur, það eiga allir erfitt með að tala um þessa tíma.“
Eva ræddi meðal annars við einstaklinga með HIV sem lifðu af faraldurinn. Hún segir umfjöllunarefnið vera átakanlegt en mikilvægt enda hefur HIV-faraldurinn lítið sem ekkert verið gerður upp í listheiminum hér á landi og þörfin sé mikil.
„Það dóu margir hlutfallslega á þessum tíma. Þetta var rosa högg fyrir alla og allt í kringum þetta var mjög átakanlegt. Viðbragðsleysið og einangrunin. Þetta er ekki beint léttmeti en ég er heldur ekki hrifin af léttmeti. Það sem var áhugavert er að það var svo mikil tenging, svo mikil fegurð og svo mikill styrkur í þessum sögum. Þannig að þetta er ekki bara sorg,“ segir Eva Rún og bætir því við að hún sé þakklát öllu fólkinu sem kom að verkinu, viðmælendum og þátttakendum í Borgarleikhúsinu.
Góða ferð inn í gömul sár er frumsýnt í Borgarleikhúsinu 4. febrúar og verður verkið aðeins sýnt fjórum sinnum.