Grínistinn og listamaðurinn Hugleikur Dagsson átti heldur betur góðan dag í gær en kappinn opinberaði á Facebook síðunni sinni að hlaðvarp hans og Söndru Barilli um sjónvarpsþættina klassísku Buffy the Vampire Slayer, er uppáhalds íslenska hlaðvarp leikkonunnar Söru Michelle Gellar, um þættina. Leikkonan fer vitaskuld með hlutverk Buffy og því um mikinn heiður að ræða. 

Þættirnir, sem voru gífurlega vinsælir á tíunda áratugnum og í byrjun 21. aldar, fjalla um ævintýri unglingsstelpunnar Buffy Summers sem banar mishættulegum vampírum með hjálp bókasafnsvarðarins Rupert Giles og vina sinna, Willow og Xander. 

Umrætt hlaðvarp, sem ber nafnið Slaygðu, er helgað þáttunum og horfa þau Hugleikur og Sandra, eða Hullow og Xandra eins og þau kalla sig, á einn þátt í seríunni og hljóðrita svo umræður sínar um hann en óhætt er að mæla með hlaðvarpinu fyrir aðdáendur þáttanna.

Ljóst er að Sarah kann að meta hlaðvarpið eins og sést á myndinni sem Hugleikur Birtir, þar sem hún stendur við hlið Drafnar Aspar Snorradóttur-Roza.