Fréttablaðið sagði í byrjun janúar frá örvæntingarfullri leit að konu sem væri komin á steypinn og gæti hugsað sér að leyfa verðlaunaleikstjóranum Rúnari Rúnarssyni að kvikmynda fæðinguna fyrir mikilvægt atriði í hans næstu kvikmynd, Echo.

Mikilvægt var að fæðingin yrði kvikmynduð í janúar þannig að tíminn var naumur og Vigfúsi Þormar, sem sá um leikaravalið fyrir myndina, var hætt að lítast á blikuna eftir að tvær tilvonandi mæður höfðu neyðst til þess að hætta við.

Allt fór þetta þó á besta veg. Sara Benediktsdóttir gaf sig fram á elleftu stundu eftir að hafa lesið fréttina og skömmu síðar ól hún hraustan og heilbrigðan dreng, Ragnar Ebba, á meðan Rúnar festi dýrmæt augnablikin á filmu.

Sjá einnig: Leita að konu sem er til í að ala barn í bíómynd

„Ég hélt að þetta yrði skrýtið, að hafa kameruna þarna inni í herberginu en svo var ég náttúrlega í einhverjum allt öðrum pælingum þegar á hólminn var komið og var ekkert að pæla í þeim þegar fæðingin var í gangi,“ segir Sara í samtali við Fréttablaðið.

„Þeir voru líka bara svo flottir og fagmannlegir og gerðu þetta svo vel, þannig að þetta truflaði mig alls ekki neitt. Þetta var víst alveg mjög góð fæðing þótt þetta hafi náttúrlega verið alveg hræðilegt og erfitt og allt það. Þá gekk fæðingin samt mjög vel,“ segir Sara og bætir við að ljósmæðurnar og annað starfsfólk á spítalanum hafi verið mjög sátt við Rúnar og hans fólk.

„Þetta var allt gert í flottu samstarfi.  Þeir vilja meina að hann sé yngsti kvikmyndaleikari Íslandssögunnar. Hann er alger kvikmyndastjarna,“ segir Sara stolt og bætir aðspurð við að allt gangi eins og í sögu og að leikarinn ungi dafni vel.

Magnað að eiga fæðinguna á filmu

Ragnar litli er fyrsta barn Söru og mannsins hennar, Þorkels Emilssonar og eins og ef til vill gefur að skilja stukku þau ekki umhugsunarlaust til og samþykktu kvikmyndun fæðingarinnar.

„Nei, nei. Alls ekki. Vinkona mín sendi mér linkinn á fréttina um þetta, bara í einhverju gríni, og ég sendi hann strax áfram á manninn minn með skilaboðunum: „hahaha, sénsinn að maður myndi gera eitthvað svona,“ eða eitthvað álíka.

Sjá einnig: Rúnar filmaði fæðingu ókunnugrar konu

„Svo lásum við nú fréttina betur og sáum að þetta snerist um þetta móment, að fá barnið í fangið. Ég las mér svo líka aðeins til um Rúnar og sá að það yrði mjög fallegt að eiga þetta og fá að taka þátt í þessu.“


Vigfús lagði áherslu á einmitt þetta í fyrstu frétt Fréttablaðsins um leitina miklu:

„Þessi sena hverfist um það kraftaverk sem barnsfæðing er. Myndavélin hreyfist aldrei þannig að þetta verður skotið á mjög viðeigandi og snyrtilegan hátt, ef svo má segja,“ sagði hann og bætti við að ætlunin væri ekki að fanga fæðinguna í nærmynd heldur miklu frekar augnablikið sem móðirin fær nýfætt barnið í fangið.

„Þannig að við höfðum bara samband og fórum á fund með Rúnari og hann sagði okkur meira frá myndinni og við tókum okkur bara nokkra daga í að hugsa þetta,“ segir Sara. Foreldrunum tilvonandi leist svo vel bæði á Rúnar og Ella Cassata, framleiðanda hjá Pegasus, að þau ákváðu að slá til.

„Það kom okkur sjálfum á óvart að við skyldum ákveða að gera þetta, enda erum við ekki fólk sem er mikið að trana sér fram. Þannig að þetta kom öllum á óvart held ég,“ segir Sara sem sér ekki eftir því að hafa ákveðið að varðveita fæðingu sonarins í bíómynd.

„Við fengum náttúrlega einhvern smá pening fyrir þetta en svo varð það meira bara aukaatriði. Aðalmálið eiginlega bara að þetta er til á filmu, sem er svolítið magnað.“