Berglind Ingvarsdóttir og Tobba Ólafsdóttir segjast vera fótboltamömmur hjá „stórveldinu í dalnum“, eins og þær kalla Þrótt, og brugðust skjótt við þegar Berglind komst að því að hvergi í heiminum virðist vera hægt að fá jóladagatal með myndum af knattspyrnukonum.

„Dóttir mín sá sem sagt strákafótboltajóladagatal og sagði við mig að hana langaði í svona. Bara með stelpum. Ég sagði að þetta væri geggjuð hugmynd og að ég myndi gúggla þetta vegna þess að svona hlyti að vera til þótt ég hefði ekki séð það á Íslandi,“ segir Berglind sem taldi lítið mál að uppfylla ósk dóttur sinnar.

Engar stelpur

Leit Berglindar að fótboltastelpudagatali á netinu reyndist árangurslaus. „Bara strákar. Mér fannst þetta svo fáránlegt að þetta væri ekki til þannig að ég sagði að ég myndi bara gera eitt heimatilbúið handa henni.“

Verkefnið reyndist umfangsmeira en hún ætlaði í upphafi þannig að hún ákvað að það yrði miklu skemmtilegra að gera dagatalið enn veglegra og endaði með að fá Tobbu í lið með sér.

„Þá auðvitað hugsaði ég strax til Tobbu sem rekur listagalleríið og prentverkstæðið Farva hérna í hverfinu og þau hjónin eru náttúrlega miklir Þróttarar,“ segir Berglind og þær drifu í að framleiða jóladagatal með 24 fótboltaspjöldum með fremstu fótboltakonum í heimi.

„Það náttúrlega seldi mér þetta bara þegar Berglind sagði mér að þetta væri ekki til svona með kvenfyrirmyndum. Þá var mér bara alveg sama hvað ég ætti að gera. Ég yrði bara með,“ segir Tobba sem hannaði spjöldin en Sæþór, maðurinn hennar, hellti sér í myndvinnsluna.

Spjöldin prýða myndir af fremstu fótboltakonum í heimi og sjálfsagt kemur fæstum á óvart að Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona og Evrópumeistari með Lyon, er þar fulltrúi Íslands.Fréttablaðið/Anton Brink

Of góð hugmynd

„Ég sá fyrir mér að prenta kannski tuttugu stykki fyrir fótboltavinkonurnar,“ heldur Berglind áfram en þær ákváðu síðan að þær þyrftu að leyfa fleirum að njóta. „Þetta var bara allt of góð hugmynd,“ segir Berglind.

„Undirtektirnar voru líka strax þannig að ekki var um að villast að það væri eftirspurn,“ bætir Tobba við um dagatalið sem samanstendur af 24 umslögum og jafnmörgum límmiðum sem leggja grunninn að dagatali sem hver og einn útbýr fyrir sig þannig að úr verður „skemmtilegasta jóladagatal ársins“ eins og þær orða það.

Strax eftir að hugmyndin kviknaði hjá Berglindi byrjaði hún að viða að sér upplýsingum og naut þess að landsliðskonan fyrrverandi Edda Garðarsdóttir er mjög góð vinkona hennar.

„Hún hjálpaði mér að velja 24 stelpur,“ segir Berglind og Tobba bætir við að spjöldin hennar Berglindar séu frábrugðin hefðbundnum fótboltaspjöldum. „Hún aflaði miklu meiri upplýsinga og við erum með miklu ítarlegri upplýsingar um þessar konur en eru á þessum hefðbundnu fótboltaspjöldum.“

Spjöldin prýða myndir af fremstu fótboltakonum í heimi og sjálfsagt kemur fæstum á óvart að Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona og Evrópumeistari með Lyon, er þar fulltrúi Íslands.

Söru Björk leist svo vel á hugmyndina að dagatalinu að hún sendi sjálf myndirnar sem notaðar eru á spjaldið hennar sem sker sig aðeins úr bunkanum. mynd/aðsend

Stelpan okkar

„Sara Björk er náttúrlega stjarnan í dagatalinu,“ segir Berglind og bætir við að hún komi að vitanlega upp á aðfangadag. „Hún er númer 24 og við gerðum hennar spjald svolítið öðruvísi til að draga hana út vegna þess að auðvitað er mega spennandi að íslensk kona sé bara á meðal þeirra allra fremstu í heimi.“

„Okkur langaði að gera hana aðeins einstakari heldur en hinar og þar sem við erum Íslendingar voru heimatökin hæg þannig að Berglind bara skrifaði henni og fékk náttúrlega svar og Sara náttúrlega bara er einstök,“ heldur Tobba áfram.

„Henni fannst þetta bara geggjuð hugmynd og var strax til í að hjálpa okkur og sendi okkur myndirnar af sér. Hún var rosalega ánægð með þetta og við erum ekkert smá glaðar með það,“ segir Berglind.

Dagatalið er selt til styrktar fótboltastelpum í 4. og 5. flokki Þróttar í netverslun Farvi.is.