Erla Gísladóttir og eiginmaður hennar Ólafur Freyr Frímannsson eiga einnig fyrirtækið Urð, sem er íslenskt vörumerki sem framleiðir sápur, ilmkerti, heimilisilm og húðumhirðuvörur. Erla er 37 ára þriggja barna móðir, sem kláraði snyrtifræði í Menntaskólanum í Kópavogi. „Ég vann aðeins aukalega við fagið eftir námið, en skellti mér fljótlega í listfræði í Háskóla Íslands, en ég ætlaði alltaf í vöruhönnun en komst ekki inn. Listfræði í háskólanum komst næst því og ekki skemmdi fyrir að elsti strákurinn minn sem nú er ellefu ára var nokkurra mánaða og komst inn í ungbarnaleikskóla á sama tíma. Ég var ein með elsta strákinn minn fyrsta árið og bjó til myndir og púða sem ég seldi í verslanir fyrir aukapening í fæðingarorlofinu. Ég kynntist síðan Óla, manninum mínum, þegar elsti strákurinn minn var eins árs en við eigum saman tvö önnur börn og giftum okkur nokkrum árum eftir að við kynntumst.

Hrifin af Frakklandi

Erla hefur ávallt haft mikla þörf fyrir og áhuga á að búa eitthvað til og vinna með höndunum. „Ég á mjög erfitt með að sitja fyrir framan tölvu allan daginn. Mér finnst gaman að fræðast um aðra menningu og sérstaklega baðmenningu annarra þjóða. Ég er mjög hrifin af Frakklandi og sápugerðarmenningunni þar, ég byrjaði upphaflega í sápugerðinni með frönsku Savon de Marseille sápurnar í huga. Mér finnst allt skemmtilegt sem hægt er að gera með höndunum, til að mynda að föndra með krökkunum, gera blómaskreytingar, stunda garðvinnu, elda og hvaðeina þegar kemur að sköpun.“

Sápurnar sem Erla framleiðir.

Hélt að ég væri búin að missa vitið

Brennandi áhugi Erlu á sápugerð og sköpun varð til þess að þau hjónin stofnuðu fyrirtæki og draumur Erlu rættist á því sviði sem hana langaði að vera á. „Urð kom til út frá allri þessari sköpunarþörf sem ég varð að fá útrás fyrir. Eitt skipti var eldhúsið okkar orðið eins og efnaverksmiðja, en þá var ég farin að pæla í ilmum. Maðurinn minn kom heim og sagði: „Já, sæll, þetta er eins og að búa með Walter White (efnafræðingnum úr Breaking Bad-þáttunum).“

Upp frá því þá ákváðum við hjónin að gera alvöru úr þessu, Óli var ávallt mjög hvetjandi og fannst þessar tilraunir mínar spennandi, sem hvatti mig til að halda áfram. Hann kom með hugmyndina að nafninu Urð og ég varð strax hrifin af því. Urð er gamalt íslenskt orð sem þýðir jörð og passar vel við aðferðirnar sem við notum og hráefnin. Svo skelltum við hjónin okkur til Suður-Frakklands þar sem við vorum búin að finna ilmog kertaframleiðslu og ákveða ilmina eftir allar þessar tilraunir heima og byrjuðum á að panta 1.200 ilmkerti. Ég man alltaf eftir því þegar stóri vörubíllinn renndi í hlað heima hjá mér, ég var ein heima og vörubílstjórinn rúllaði út nokkrum pallettum og skildi eftir á bílaplaninu.

Ég var heillengi að bera þetta allt inn og það sást ekki í húsgögn fyrir ilmkertum. Þá man ég eftir að hafa fengið svona móment, hvort ég væri mögulega búin að missa vitið.“ Umbúðirnar og nöfnin á vörulínunum eru fáguð og vönduð og hönnunin til fyrirmyndar. „Nöfnin á vörunum eru tengdar minningum úr æsku og nostalgískum minningum sem tengjast ákveðnum ilmum og upplifunum. Hver ilmur á sitt form og liti og umbúðirnar eru unnar út frá því.“

Nota matarafganga sem falla til

Nú er Erla komin með nýja vörulínu, Baða Reykjavík, sem inniheldur hand- og baðsápur, sem eru náttúrusápur unnar úr hráefnum sem falla til. Hvernig kom það til að þú fórst í samstarf við Bónus um nýja sápulínu, Baða? „Baða kom til því við hugsuðum með okkur að það væri sniðugt að nýta krafta okkar, tæki og tól til að framleiða sápur sem væru aðgengilegri og ekki eins dýrar, en samt úr jafngóðum hráefnum. Matarsóun og umhverfisvitund hefur mikið verið í umræðunni og okkur langaði til að taka þátt og leggja okkar af mörkum í þeirri baráttu.

Við sóttum um í Uppsprettu, sem er nýsköpunarsjóður Haga og vorum eitt af þeim fyrirtækjum sem hlutu styrk. Hagar hafa verið afar hjálpsamir og ferlið hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Þau hjá Bönunum hafa verið mjög liðleg og hjálpsöm og láta okkur vita ef þau eiga hráefni sem við gætum mögulega nýtt.“ Hver er sérstaða línunnar? „Sápurnar eru handgerðar á gamla mátann og án allra skaðlegra aukefna, við notum íslenska repjuolíu og matarafganga sem falla til úr Bónusverslunum.

Sápurnar eru því mjög náttúrulegar og sporna einnig gegn matarsóun. Sápurnar innihalda kókosolíu, repjuolíu og castor-olíu, að viðbættum ávöxtum eða grænmeti, sem annað hvort er notað ferskt eða búið að þurrka og mala. Við notum aðeins hreinar ilmolíur út í sápurnar.“