Sannkölluð stórsöngvaraveisla verður í Salnum Kópavogi föstudaginn 7. maí klukkan 20.00. Þar munu Stuart Skelton tenór og Kristinn Sigmundsson bassi flytja óperuaríur og dúetta eftir Mozart, Wagner, Verdi, Bellini, Puccini og Smetana, auk laga eftir Schumann, Wolf, Tosti og Leoncavallo. Með Stuart og Kristni verður Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kristinn og Stuart syngja saman. „Við höfum þrisvar sungið saman erlendis, alltaf Wagner. Þar á meðal í Lohengrin í Los Angeles þar sem Stuart stal senunni,“ segir Kristinn.

Stuart er rómaður Wagner-túlkandi og Kristinn hefur líka mikið sungið í Wagner-óperum. Ekki eru allir sem kunna að meta tónlist Wagners. „Flestir þeirra sem kunna ekki að meta Wagner eru fordómafullir, þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um,“ segir Kristinn ákveðinn. En er tónlist Wagners ekki stundum full hávær? spyr blaðamaður. „Stundum, en það sama má til dæmis segja um tónlist Berlioz. Tónlist Wagners er oft einstaklega falleg, eins og arían úr Lohengrin sem ég syng á tónleikunum,“ segir Stuart.

Matthildur Anna Gísladóttir verður við píanóið. „Það er mikið stuð og óskaplega gaman að vinna með Kristni og Stuart,“ segir hún. „Þeir búa yfir mikilli reynslu, eru gríðarlega fróðir og það er unun að hlusta á þá segja sögur úr bransanum.“

Píanóið eins og hljómsveit

Óperuaríur og dúettar eru hluti af efnisskránni og Matthildur Anna er spurð hvort óperutónlist hljómi öðruvísi þegar stuðst er við píanó og hljómsveit er víðs fjarri. „Það er alveg hægt að koma hljómsveitinni að í gegnum píanóið,“ segir hún. Stuart bætir við: „Matthildur Anna er svo frábær og fær að þegar hún spilar óperutónlist þá finnst manni eins og píanóið sé ekki bara þarna heldur hljómsveitin líka.“

„Maður heyrir yfirleitt þegar píanistar spila óperutónlist hvort þeir hafi hlustað á hana með hljómsveit. Það hefur Matthildur Anna sannarlega gert,“ segir Kristinn.

Alltaf að segja sögur

Í söng sínum eru Kristinn og Stuart miklir túlkendur. „Túlkunin er gríðarlega mikið atriði,“ segir Kristinn. „Ef maður syngur bara nóturnar og kemur frá sér hljóðum án túlkunar þá finna áheyrendur það og þeim fer að leiðast. Við söngvararnir erum alltaf að segja sögur og í rauninni erum við að úthella tilfinningum okkar í gegnum sönginn.“

„Það sem skiptir líka máli í sambandi við þetta er að tónskáldin sömdu tónlist sína við texta annarra, nema Wagner sem samdi eigin texta. Tónskáldið beið eftir að fá textann og þegar hann var kominn þá var tónlistin samin og tilfinningar túlkaðar í gegnum hana,“ segir Stuart. „Strauss er undantekning frá þessu en hann samdi tónlist við léleg ljóð og sagði að góðu ljóðskáldin þyrftu ekki á aðstoð hans að halda.“

„Schubert og Schumann sömdu einungis tónlist við ljóð sem þeir hrifust af og töluðu til þeirra, það var þáttur í mikilli velgengni þeirra beggja,“ segir Kristinn.

Öll þrjú segjast þau hlakka mikið til tónleikanna. „Þetta er skemmtilegt og fjölbreytt prógramm. Sannkallað stuðprógramm,“ segir Matthildur Anna.

Hinn ástralski Stuart Skelton þykir nú um stundir vera einn besti tenórsöngvari heims. Meðfram söngnum starfar hann sem kennari í Listaháskóla Íslands. „Ég á dásamlega konu sem er fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þegar kennarastarf losnaði við Listaháskólann stökk ég inn í það. Mér finnst alveg frábært að vera hér á Íslandi,“ segir hann.