Bækur

Eldhugar – Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu

Pénélope Bagieu

Þýðandi: Sverrir Norland

útgefandi: AM forlag

Fjöldi síðna: 312

Eldhugar er vegleg bók, rúmar 300 síður í stóru broti og í bókahillu fer hún ekki fram hjá neinum. Ekki frekar en konurnar sem eru umfjöllunarefni hennar. Hún hefur að geyma myndasögur um líf þrjátíu kvenna úr mannkynssögunni, sú elsta var uppi á fjórðu öld fyrir krist og sú yngsta er enn lifandi.

Eldhugarnir eru ólíkar konur, allt frá kvensjúkdómalækninum Agnodice í Grikklandi hinu forna og að Josephine Baker, dansara og stríðshetju í seinni heimsstyrjöldinni. Hér er ekki aðeins fjallað um konur sem allir hafa heyrt um, heldur líka konur sem breyttu heiminum á hátt sem kannski er ekki ljós í fyrstu, konur sem eltu drauma sína og börðust fyrir því sem þeim fannst skipta máli, eins og dýratúlkurinn Temple Grandin og Frances Glessner Lee, sem var frumkvöðull í gerð smárra glæpalíkana og þar með rannsóknum morðmála. Eldhugarnir spanna þannig vítt svið sagna ólíkra kvenna sem er skemmtilegt að kynnast.

Höfundurinn Pénélope Bagieu er vel þekktur myndasöguhöfundur fyrir fullorðna, sem hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir þessa bók og hún hefur verið þýdd á yfir 20 tungumál. Eftir bókinni hafa verið gerðir stuttir þættir sem eru á dagskrá KrakkaRÚV.

Það er alveg á mörkunum að Eldhugar sé bók til að fara með í háttinn, stærð og þyngd bókarinnar gerir hana kannski ekki að þess háttar lesningu, en sögurnar eru hins vegar tilvaldar til að lesa með börnum fyrir svefninn. Þessar sögur eru þó alls ekki endilega bara ætlaðar börnum heldur eru þær fróðlegar fyrir alls kyns lesendur, fjallað er um einkalíf persónanna ekki síður en önnur afrek þeirra og þó eldhugarnir séu allt afrekskonur, þá er lífshlaup þeirra ekki endilega átakalaust eða síhamingjusamt.

Þýðing Sverris Norland er lipur og læsileg en letrið á köflum ekki auðlesið fyrir börn, einkum þó skrifstafirnir sem ég efast um að mörg börn geti stautað sig fram úr, enda engin þörf í dag fyrir slíka kunnáttu, nema helst til að lesa afmæliskort frá eldri ættingjum. Eldhugar er afar vönduð bók, teikningarnar skemmtilegar og frásagnirnar fróðlegar og þó fæstar þeirra kvenna sem um er fjallað hafi haft möguleikann á því að gera aðeins og eingöngu það sem þær vildu, eins og segir í undirtexta bókartitils, þá eru þær sannarlega fyrirmyndir sem vert er að heiðra og halda á lofti.

Niðurstaða: Einstök og áhugaverð bók fyrir unga sem aldna um merkilegar kvenhetjur sem breyttu heiminum.