Óskarsverðlaunahafinn Sandra Bullock segist ætla taka sér hlé frá leiklist og einbeita sér að börnunum sínum. The Hollywood Reporter greinir frá.
„Ég er svo útbrennd. Ég er svo þreytt og ég er ekki fær um það að taka góðar ákvarðanir og ég veit það,“ segir Bullock, en hún segist ekki vita hversu langt hlé hún mun taka frá leiklist.
Hún segir að hún hafi stöðugt verið að vinna og að hún hafi verið lánsöm, en það væri mögulega að verða vandamál.
„Þetta var eins og að opna stöðugt ískáp og leita af einhverju sem var aldrei þar. Ég sagði við sjálfa mig að hætta þessu, velgengnin sem þú leitar af er ekki hér. Þú þarft ekki að vera sífellt að vinna til þess að skipta máli.“
Bullock hefur leikið í um fimmtíu myndum á glæsilegum ferli sínum og hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í myndinni The Blind Side. Árið 2010 og 2014 var hún launahæsta leikkona heims.