Söng­konan Molly Sandén segist hafa verið skel­þunn eftir djamm í Los Angeles þegar fram­leiðandinn og vinur hennar Arn­þór Birgis­son hringdi í hana einn morguninn og bauð henni að koma að taka upp lag fyrir nýja bíó­mynd. Sandén var hikandi í fyrstu en á­kvað að slá til og hitti Arn­þór í stúdíói í bænum þar sem hún sam­þykkti svo að syngja lagið Húsa­vík fyrir kvik­myndina Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga.

Það er ó­hætt að segja að myndin sé að gera allt vit­laust á Húsa­vík um þessar mundir, því eins og kunnugt er fjallar hún um ævin­týri þeirra Lars og Sigrid, leikin af Will Ferrell og Rachel M­cA­dams, sem koma frá litla bænum Húsa­vík til að reyna að sigra í söngva­keppninni vin­sælu. Sandén syngur þó aðal­lag myndarinnar, Húsa­vík – My Home Town, fyrir Rachel M­cA­dams.

Lagið hefur nú verið til­nefnt til Óskars­verð­launanna en þau verða haldin í kvöld. Í til­efni þeirra flaug Sandén til Ís­lands fyrr í mánuðinum til að taka þátt í tökum á mynd­bandi sem verður sýnt á verð­laununum í kvöld.

Sér sjálfa sig í Sigrit

Hún ræðir allt ferlið við miðilinn Euro­vision.tv. „Fyrir tveimur árum var ég í fríi með besta vini mínum í LA. Mark­miðið var að vinna ekkert. Ég vaknaði seint einn morguninn eftir að annar vinur minn Arn­þór Birgis­son hringdi í mig og sagði „Hey hvað ertu að gera í dag? Langar þig að taka smá upp fyrir skemmti­legt verk­efni?“

Sandén segist hafa verið „skel­þunn“ og hálf­hikandi í fyrstu því hún hafi jú ekki ætlað að vinna í fríinu og var á leið í göngu. Hún á­kvað þó loks að slá til og mætti í stúdíóið til Arn­þórs. „Þegar ég kom í stúdíóið og fékk að vita meira um Fire Saga fannst mér eins og þessu hafi verið ætlað að gerast. Ég er Sig­rit – hún er yngri ég, sem vill ná þessum háu nótum og syngja í Euro­vision.“

Sandén hafnaði sjálf í þriðja sæti í Euro­vision­keppni ung­menna árið 2006 fyrir hönd Sví­þjóðar. Hún hefur síðan notið nokkurra vin­sælda sem söng­kona heima fyrir.