Nýjasta auglýsingaherferð Strætó hefur svo sannarlega slegið í gegn. Þónokkrir hafa bent á að auglýsingarnar líkjast óneitanlega myndskreytingum úr bókinni Safe Baby Handling Tips eftir David og Kelly Sopp, sem hafa verið á flakki um internetið sem eins konar „meme“ í nánast áratug.

Það er þó hvorki tilviljun né eftirherma, en það er enginn annar en David Sopp sem teiknaði myndirnar fyrir Strætó. Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi segist hafa verið lengi aðdáandi Safe Baby Handling Tips enda eru myndskreytingarnar sprenghlægilegar. Umferðin inn á Instagram síðu Strætó hefur tífaldast frá því að fyrstu ráðin voru birt.

David myndskreytti bókina og Kelly eiginkona hans skrifaði hana.
Safe Baby Handling Tips/Kelly Sopp & David Sopp

„Ég var búinn að ganga með svona hugmynd í maganum lengi. Það koma stundum upp mál þar sem farþegar hafa ekki gert sig sýnilega fyrir strætisvagninum eða hafa hellt yfir sig og aðra heitu kaffi vegna þess að þau tóku með sér kaffi í opnu íláti. Mig langaði að finna leið til að koma með góð ráð án þess að predika. Ég var mikill aðdáandi Safe Baby svo ég ákvað að kýla á það og finna listamanninn,“ segir Guðmundur Heiðar.

David fékk Strætókort með íslensku nafni.
Mynd/David Sopp

David tók vel í hugmynd Strætó og hannaði um 17 myndir. David segir að Guðmundur hafi sjálfur komið með mikið af hugmyndum.

„Hugmyndin kom frá Strætó. Guðmundur hafði samband við með og var með alls konar skemmtilegar hugmyndir um fræðsluefni og ábendingar fyrir farþega. Ég bara gat ekki sagt nei,“ segir David Sopp, teiknari og hönnuður, í samtali við Fréttablaðið.

David fær vini og vandamenn til að stilla sér upp fyrir Strætó myndirnar.
Mynd/David Sopp

David segir að þónokkrir hafi haldið því fram að Strætó væri að stela hugmyndinni hans. Fólk hafi ekki áttað sig á því að um væri að ræða samvinnuverkefni.

„Það er svolítið kaldhæðnislegt því ótalmargir hafa stolið myndum mínum úr Safe Baby Handling Tips og deilt þeim á netinu. En þetta var sem sagt samvinnuverkefni með Strætó. Það var ótrúlega skemmtilegt að vinna að þessu verkefni. Strætó teymið er æðislegt og ég hlakka til að fá að prófa þessi ráð í eigin persónu á Íslandi. Góðu ráðin, ekki slæmu,“ segir David og hlær.