Donna Cruz er mörgum að góðu kunn en hún fór með eitt aðalhlutverkið í kvikmyndinni Agnes Joy, sem sópaði að sér Edduverðlaunum í haust. Hún stundar nú nám í félagsfræði við Háskóla Íslands og er í hlutastarfi hjá Nova, en myndi ekki slá hendinni á móti góðu hlutverki ef það gæfist. Jólaprófin eru á næsta leiti og Donna hefur því í nógu að snúast en hún lætur jólastressið ekki trufla sig. „Ég hef satt að segja aldrei verið mikil jólamanneskja. Ég var í söfnuði votta Jehóva, líkt og mamma mín og amma, þangað til ég var fimmtán ára. Vottarnir halda ekki jól en hins vegar héldum við matarboð á þessum tíma og hittum stórfjölskylduna. Ég er ekki alin upp við að gefa eða fá jólagjafir, nema ég fékk pakka frá afa mínum, sem mér þótti vænt um. Ég var ekkert að pæla í þessu þegar ég var barn en man þó að mér fannst dálítið leiðinlegt að fá ekki í skóinn,“ segir Donna.

Annað hvert ár fór fjölskyldan til Filippseyja yfir jólin og þar kynntist Donna kaþólsku jólahaldi. „Þarlendis á ég stóra fjölskyldu sem er kaþólskrar trúar, eins og pabbi minn. Þar er hefð fyrir því að fara í messu þann 23. desember og á jóladag, sem pabbi sótti, en ég var heima á meðan. Á Filippseyjum eru jólin afar mikilvæg hátíð og það er mikið skreytt. Strax í lok september eða byrjun október er byrjað að undirbúa jólin. Ég man að á Filippseyjum fékk ég jólagjafir. Ég bjóst ekki við að fá gjafir en var alltaf þakklát fyrir það sem ég fékk,“ rifjar Donna upp.

„Það var ekki fyrr en ég kynntist kærastanum mínum, Ara Steini Skarphéðinssyni, að ég kynntist hefðbundnu, íslensku jólahaldi. Hann er mikið jólabarn og alinn upp við sterkar jólahefðir. Ég er ekki mikið fyrir að skreyta en Ara Steini finnst það mjög gaman, svo hann sér að mestu um að skreyta heimilið. Við verðum hjá foreldrum hans á aðfangadag og jóladag og fáum lambahrygg í matinn og reykta gæs og graflax, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Núna er ég í raun að upplifa jól í fyrsta sinn með jólagjöfum,“ segir Donna og bætir við að eftir að hún eignaðist lítinn frænda, sem er orðinn sex ára, fái hún meiri jólafiðring en áður.

Afi hennar lést árið 2011 og Donna hefur fyrir sið að fara að leiðinu hans á aðfangadag og kveikja á kerti til að minnast hans. „Hann gerði þetta fyrir afa sinn og mig langar að gera þetta fyrir hann,“ greinir Donna frá. Hún segir að þegar hún líti til baka og beri saman þessi ólíku jól sem hún hefur upplifað sé eitt sem standi upp úr. „Það er þessi notalega samvera með fjölskyldunni. Hún er mikilvægust af öllu.“