„Við fengum frábæra heimsókn í Samtökin '78, en Reynir Grétarsson, stjórnarformaður InfoCapital kíkti til okkar. Reyni blöskraði að sjá að Samtökin ’78 væru rekin á yfirdrætti og hefur nú greitt þann yfirdrátt upp fyrir okkur en fjárfestingafélag hans, InfoCapital, styrkti Samtökin um fimm milljónir króna,“ segir í nýrri færslu á Facebook-síðu Samtakanna ´78.

Fyrr í dag greindi Fréttablaðið frá því að ónefndur velgjörðarmaður hefði greitt upp yfirdrátt félagsins.

„Ég skora á fólk að styrkja Samtökin, það gengur ekki að svona samtök séu rekin á yfirdrætti með tilheyrandi vöxtum sem gætu nýst í annað“ sagði Reynir þegar hann hittir Bjarndísi, varaformann.

Fram kemur í færslu samtakanna að fjármunirnir verði nýttir til að stytta biðtíma í ráðgjöf og í almennan rekstur.

Færsluna má sjá hér að neðan.