Hollenski umboðsmaðurinn Kim Wagenaar hefur verið búsett á Íslandi í nokkur ár. Á þeim tíma hefur hún skapað sér nafn í íslenskri tónlistarsenu sem fulltrúi tónlistarfólks og umboðsmaður. Hún hefur meðal annars unnið fyrir Damien Rice og Ólaf Arnalds, ásamt fjölda annarra.
Music Managers Forum, sem skammstafast MMF, eru stærstu samtök umboðsmanna tónlistarfólks í heiminum. Samtökin miða að því að vera upplýsingaveita og samfélag fyrir umboðsmenn í faginu.
Opnunarhóf Íslandsdeildarinnar er í dag á KEX hostel klukkan 18.00 og eru allir velkomnir. Í fréttatilkynningu á síðu viðburðarins segir:
„Með því að stofna sjálfstæða deild á Íslandi með fyrirmynd og stuðningi Bretlandsdeildarinnar verða meðlimirnir hluti af alþjóðlegu samfélagi á sama tíma og þeir styðja við sívaxandi samfélag umboðsmanna á Íslandi. Þá ljá samtökin íslenskum listamönnum rödd, hér á landi og víðar.“

Kim útskýrir að í núverandi umhverfi séu umboðsmenn tónlistarfólks á Íslandi að vinna sem sjálfstæðar eyjar og ekki sé samfélag utan um fagið með tilheyrandi stuðningi.
Hugmyndin að stofnun Íslandsdeildar MMF kom til í upphafi árs þegar ÚTÓN stóð fyrir samráðsfundi umboðsmanna. „Í framhaldinu ákváðum við að halda reglulega umboðsmannafundi,“ segir Kim. „En fólk er mikið að túra og er rosa upptekið og því þurftum við vettvang sem var stöðugur og viðvarandi,“ segir hún.
Að stofnun MMF standa, auk Kim, þeir Nick Knowles frá KxKn Management og Árni Þór Árnason, umboðsmaður Ólafs Arnalds.
Auk MMF stendur Kim að stofnun Shesaid.so á Íslandi. Um er að ræða alþjóðleg samtök kvenna í tónlistariðnaði á Íslandi. Kim vinnur að verkefninu í samstarfi við Hrefnu Helgadóttur, Önnu Jónu Dungal og Kelechi Amadi.
Að sögn Kim er mikil þörf á almennum samráðsvettvangi kvenna og kynsegin fólks í tónlistariðnaði, ekki eingöngu sem snýr að tónlistarfólki heldur einnig tæknifólki, fjölmiðlafólki og þeim sem standa að umboðsmennsku.