„Ég man hvað ég var ótrúlega hneyksluð í fyrra þegar Michaela Coel fékk ekki tilnefningu fyrir I May Destroy You,“ segir Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur, sem segist hafa tekið eftir ójafnvægi í tilnefningum Golden Globe-hátíðarinnar. „Ég man að það var mikil hneykslunaralda í kringum það.“

Hátíðin sem er verðlaunhátíð samtaka erlendra fréttaritara í Hollywood, hefur sætt mikilli gagnrýni að undanförnu. Þykja samtökin aðhyllast kynþáttahyggju, kvenfyrirlitningu og úr sér gengið íhald, auk þess sem úttekt Los Angeles Times á samtökunum benti til fjölda spillingarmála af ýmsu tagi, sem spanna langt tímabil. Hátíðin, sem yfirleitt laðar að sér 18 milljón áhorfenda víðsvegar að hnettinum, fór fram fyrir lokuðum tjöldum að sinni, án gesta.

Stjörnur sem hlotið hafa tilnefningar eða verðlaun í ár hafa ekki tjáð sig um heiðurinn eða þakkað fyrir, með einstaka undantekningum. NBC sjónvarpsstöðin hætti við að senda út hátíðina vegna spillingarmála og lýðfræðilegrar einsleitni nefndarmanna og tilnefndra. Þegar Los Angeles Times gerði úttekt á hópnum kom á daginn að af 90 meðlimum samtakanna var enginn þeldökkur og aðeins örfáar konur í hópnum. Meðalaldurinn var óeðlilega hár. Meðlimir þágu mútur gegn tilnefningum og verðlaunum.

Einni stærstu verðlaunahátíð bandaríska kvikmyndaiðnaðarins hefur verið, á góðri íslensku, slaufað.

Sigríður, sem hefur fjallað um kvikmyndir í 23 ár og fylgst með Golden globe-hátíðinni alla tíð, segir hátíðina þó hafa brugðist við gagnrýninni með því að reyna að gera bragarbót. „Þau bættu við 21 meðlimum sem eru ekki hvítir. Þeir birtu nýjar siðareglur og hafa lofað að árið 2023 muni hluti hins svokallaða ethnic minority, aukast um 50 prósent.“

Stjörnur sniðganga hátíðina

„En ég skil að fólk trúi þessu ekki endilega, að þau séu að breytast svona mikið. En þetta veltur síðan á því hvort að verðlaunin haldi velli eða hreinlega deyji út,“ segir hún og bætir við að NBC hafi gefið loforð um að sýna hátíðina á næsta ári ef staðið verði við stóru orðin.

Sigríður segir að margar stjörnur hafi sent frá sér yfirlýsingu um að sniðganga hátíðina. „Ekki bara vegna rasisma heldur líka vegna kynferðislegrar áreitni og karlrembu,“ segir hún. „Scarlett Johansson er til dæmis hætt að taka þátt í fréttamannafundum á þeirra vegum. Hún er þreytt á karlrembuspurningunum og því sem flokkast hreinlega sem áreitni.“

Leikararnir Scarlett Johansson og Mark Ruffalo eru meðal þeirra sem hafa talað opinskátt gegn hátíðinni og samtökunum sem standa henni að baki.

Hún bætir við að leikarinn Mark Ruffalo hafi sagt opinberlega að hann geti ekki lengur verið stoltur af sínum verðlaunum. „Svo hafa komið upp spillingarmál, eins og þegar framleiðendur Emily in Paris borguðu meðlimum nefndarinnar fyrir að koma í ferð til Parísar og kynna sér þættina.“

Bein afleiða #Me-too og BLM

Að sögn Sigríðar hafa HFPA samtökin ekki alveg lesið nútímann. „Þetta hafa bara verið samtök hvítra forréttindakarla.“

Aðspurð hvort að Óskarsverðlaunahátíðin hafi náð að rétta úr kútnum, eftir sambærilega gagnrýni, segir Sigríður svo vera. „Það er áberandi hvað þetta hefur skánað mikið.“ Hún segir breytinguna vera beina afleiðu hreyfinga á borð við #Me-too og Black lives matter. „Þetta tvennt er að breyta heiminum.“

Ekki veiti af byltingu hér

Varðandi ástandið í bransanum hér á landi segir Sigríður að ekki veiti af byltingu. „En sem betur fer mjakast þetta líka. Það eru fleiri konur að koma inn sem leikstjórar, en það er ekki hægt að bera tölfræðina úti saman við tölurnar hér. Við erum svo fá og það breytist svo mikið á milli ára. Ein mynd breytir rosalega miklu.“

Sigríður segist þó sjá áhrif #Me-too hreyfingarinnar í bókmenntum landans. „Það er rosalega mikið af sögum kvenna í skáldsögum sem komu út fyrir jólin. Mikið af sögum um allskyns ofbeldi. Ekki bara alltaf ungar konur, heldur meira af sögum kvenna sem eru komnar yfir miðjan aldur,“ segir hún.

Þær breytingar megi einnig greina í bíóheiminum. „Þetta var þannig áður fyrr að konur gátu nánast sest í helgan stein eftir fertugt en núna er hlutverkum að fjölga fyrir þann aldurshóp.“