Listamessan, sem hefst í dag, er nú haldin í þriðja sinn. Hún á að vera árlegur viðburður, en féll niður í fyrra vegna Covid. Árið 2019 mættu tíu til tólf þúsund manns á messuna og búast má við enn meiri fjölda nú en messan stendur yfir í sjö daga í stað þriggja áður.

Torg Listamessa er stærsti sýningar- og söluvettvangur íslenskrar myndlistar en þar má sjá á einum stað fjölbreytileg listaverk. Söluverð verka rennur að fullu til listamannanna.

Tilgangur messunnar er að auka sýnileika myndlistarinnar og gera fólki auðveldara fyrir að kynna sér samtímalist sem og að eignast listaverk eftir íslenska eða erlenda listamenn sem starfa hér á landi.

Fimmtíu og átta listamenn, félagsmenn í SÍM, eiga að þessu sinni verk á messunni. Sýningarstjóri er Annabelle von Girsewald sem hefur unnið með íslenskum myndlistarmönnum síðan 2010.

Í víðu samhengi

„Listamessan er vaxandi verkefni og það er mikill fengur að fá Annabelle sem sýningarstjóra, en hún aðstoðar listamennina og veitir þeim listræna ráðgjöf,“ segir Ásgerður Júlíusdóttir, verkefnis- og kynningarstjóri SÍM.

„Nýr þáttur í messunni er kynning á erlendum gestalistamönnum sem verða þar með sérstakan bás.“

„Þarna kemur fólk og skoðar verk og sér þau í víðu samhengi. Listamennirnir verða á staðnum allan tímann og tala við gesti og útskýra list sína. Listamessa eins og þessi skiptir miklu máli, ekki bara meðan á messunni stendur því eftir hana hefur orðið framhald á samskiptum listamanna og kaupenda,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM.

Skemmtileg listamiðstöð

Ásgerður og Anna segja Korpúlfsstaði bjóða upp á alls kyns möguleika. Þar verður opnaður stór fremri salur í notalegu rými þar sem verða kaffiveitingar. Fimmtudaginn 28. október er langur fimmtudagur en þá verður opið frá 18 til 22 og tangódansarahópur mætir á svæðið.

„Draumur okkur er að þarna verði til skemmtileg listamiðstöð, ekki bara fyrir myndlistarmenn heldur fyrir aðrar listgreinar, þannig að þarna verði til dæmis tónleikar og upplestrar,“ segir Ásgerður.

Frekari upplýsingar um Torg Listamessu má finna á sim.is og heimasíðunni facebook.com/TorgListamessa.