Bandaríska söngkonan og ungstirnið Billie Eilish sló rækilega gegn í glæsilegum daufbleikum kjól frá Oscar de la Renta á stærsta tískuviðburði ársins, Met-galakvöldinu, síðastliðinn mánudag.

Ótalmörg tískuhús kepptust við að fá að klæða stórstjörnurnar og þegar Oscar de la Renta hafði samband við Billie Eilish samþykkti hún að klæðast kjól þeirra með einu skilyrði: Að tískuhúsið myndi hætta að selja loðfeldi og nota þá á tískusýningum.

„Það var mikill heiður að fá að klæðast þessum kjól og að vita það að Oscar de la Renta muni aldrei aftur nota loðfeldi,“ skrifaði söngkonan á Instagram. Segist hún þakklát að hönnuðurnir Fernando Garcia og Laura Kim hafi hlustað á hana og fengið þetta í gegn með tískuhúsinu.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem söngkonan hefur notað stöðu sína fyrir dýravelferð og loftslagsmál. Hún vakti athygli á bandarísku tónlistarhátíðinni árið 2019 þegar hún klæddist bol með stuðningsyfirlýsingu við baráttuhóp tónlistarmanna gegn loftslagsvánni.

„Engin tón­list á dauðri plánetu“ stóð á bolnum en um er að ræða víg­orð sam­takanna Music Declares Emer­gen­cy, sem saman­stendur af hópi tón­listar­manna og sam­taka sem berjast fyrir því að vekja at­hygli á lofts­lags­vánni.

Billie Eilish er vegan baráttukona.
Fréttablaðið/Getty images