Harpa Einarsdóttir og Inga María Brynjarsdóttir eru tvær af 11 listamönnum sem verða með samsýningu í áhugaverðu rými í Bríetartúni 11 næstkomandi laugardag. Hópurinn samanstendur af listamönnum úr mismunandi áttum, en þeir deila vinnustofum í Bríetartúni 13 sem er annað tveggja húsa sem áður hýstu WOW air við Höfðatorg.

Harpa Einarsdóttir listakona, einnig þekkt sem Ziska, hefur lengi unnið við myndlist og tekið þátt í ýmsum skapandi verkefnum, meðal annars við leikhús og kvikmyndir. Hún er menntaður fatahönnuður og býr til fatalínuna Myrka. Hún hefur unnið mikið með Hatara síðasta árið, ásamt búningahönnuðinum Karenu Briem. Harpa sýnir verk unnin með blandaðri tækni á sýningunni, verkin eru innblásin af bakteríum og vírusum sem verða að litríkum náttúruheimi í líkamanum.

Inga María er þekkt fyrir einstakar og súrrealískar dýralífsteikningar.

„Við Inga María höfum þekkst lengi og vorum áður með sameiginlega vinnustofu í Komplexinum í Skipholti, þar sem margir skemmtilegir karakterar voru saman, meðal annars Goddur, Egill Sæbjörns og Ragnar Helgi rithöfundur. Það var mikill söknuður þegar húsinu var breytt í Bónusverslun því við eigum ófáar skemmtilegar minningar af þessari skrautlegu listafjölskyldu og uppátækin voru ófá,“ segir Harpa.

Hún segir vináttu þeirra Ingu litast af mikilli sköpunargleði.

„Maður veit aldrei við hverju má búast þegar við Inga dettum í sköpunargleðina saman, við héldum einu sinni listamaraþon þar sem við teiknuðum og máluðum allan daginn og fólk gat komið og keypt af okkur nýsköpuð verkin. Kvöldið endaði svo í búningapartíi, þegar við vorum tvær með akrýl, málaði ég Ingu alla túrkísbláa og ljósmyndaði hana, úr því urðu bestu verk kvöldsins,“ segir Harpa og hlær.

Harpa Einarsdóttir er einnig þekkt undir listamannsnafninu Ziska.

Harpa tók við rúmgóðu stúdíói í Bríetartúni síðasta sumar.

„Áður en leið á löngu var Inga mín komin til mín. Ég átti ekki von á að karlarnir hér á hæðinni, sá elsti hátt í áttrætt, yrðu svona miklir og góðir vinir okkar. Hvað þá að við myndum standa saman fyrir svona magnaðri sýningu í listrænni stjórn Bjarna Sigurbjörnssonar myndlistarmanns. Stefán S. Hvítadal er einstakur karakter og kallar sig meðal annars afa hundsins míns og dekrar hann út í eitt,“ segir Harpa.

Inga María er þekkt fyrir einstakar, súrrealískar dýralífsteikningar, auk þess að vinna með fundin dýrahræ sem eiga það til að stuða fólk svolítið. Inga mun sýna teikningar á sýningunni, stórar dýralífsteikningar og minni teikningar með brotnum eða ónýtum hlutum.

„Undanfarið hef ég verið að ferðast reglulega til Grænlands með Hróknum og kennt þar í hjálparstarfi, ásamt því að vinna við hleðslu og stígagerð í náttúru Íslands, sem ég nýti einnig í sköpun minni,“ segir Inga.

Sýningin er í Bríetartúni 11 og hefst á laugardaginn klukkan 17.00. Hún stendur til 15. mars.