Ei­líf endur­koma
Kjar­vals­staðir

Mestan hluta tuttugustu aldar var mynd­list Jóhannesar Kjarval ó­efað skör hærra í vitund ís­lensku þjóðarinnar en mynd­list nær allra sam­tíma­manna hans. Hér var ekki um að kenna þeim þremur mein­semdum sem nú spilla eðli­legri um­gengni okkar við mynd­list, ýkjum, vöru­merkingu og af­þreyingar­væðingu hennar, það sem á al­þjóð­legu við­skipta­máli er nefnt „hype“ og „branding“, heldur beinum og milli­liða­lausum tengslum lista­manns og þjóðar.

Ekki þarf annað en fletta í gegnum um­fangs­mikið bréfa­safn lista­mannsins, sem varð­veitt er að Kjarvals­stöðum, til að verða þess á­skynja hvaða hug al­þýða manna um allt land, ekki síst skynugar konur, bar til verka lista­mannsins. Í augum þessa fólks var Kjarval sá sem opnaði augu þjóðarinnar fyrir fegurð landsins, sem lengi hafði verið undir­lagt nyt­semdar­hug­takinu – bók­staf­lega breytti við­horfi lands­manna til ör­foka ó­byggða. Hann var einnig sá sem skynjaði mikil­vægi skáld­skaparins og ævin­týranna fyrir þjóðar­sál, sem barist hafði fyrir til­veru sinni í alda­raðir.

Loks má segja að Kjarval, á­samt með Hall­dóri Lax­ness, eigi höfundar­réttinn að skil­greiningunni á fyrir­bærinu „Ís­lendingur“, um það leyti sem sú mann­tegund stígur inn í tuttugustu öldina. „Hausarnir hans Kjarvals“ eru magnaðar lýsingar á fólki sem stærði sig af ættar­tengslum við jafnt berg­risa sem nor­ræna konunga.

Ó­snertan­legur meistari

Á löngum lista­manns­ferli Kjarvals var fá­títt að aðrir lista­menn leituðu í smiðju til hans, eða efndu til ein­hvers konar sam­ræðu við verk hans, eins og nú er í tísku. Senni­lega kom þar margt til, ó­mæld virðingin sem f lestir báru fyrir honum, sér­stök stíl­brögð hans, ekki síst sí­kvik teikningin í mál­verkinu, sem menn töldu hann eiga einka­leyfi á, og síðast en ekki síst tak­markaður skilningur á því sem fyrir honum vakti.

Enn í dag er ég ekki viss um að Ís­lendingar hafi skilið Kjarval til fullnustu, til dæmis hvaða augum hann lítur hug­takið „staður“. Öðru hvoru má að sönnu sjá hvernig sam­ferða­menn hans, á borð við Ás­grím Jóns­son, Þórarinn B. Þor­láks­son eða Jón Stefáns­son, freista þess að kveikja nýtt lífi í yfir­borði mynda sinna með því að líkja eftir málara­töktum Kjarvals, en allt eru þetta skamm­vinnar undan­tekningar. Það er varla fyrr en á sjötta ára­tugnum, þegar lista­maðurinn er smátt og smátt að breytast úr ó­snertan­legum „meistara“ í aldur­hnigna goð­sögn, að við sjáum alls­herjar yfir­töku á „kjarvölskum“ stíl eiga sér stað, til að mynda í mál­verkum Péturs Frið­riks frá Þing­völlum og Vífils­felli.

Ýmiss konar rann­sóknir á verkum Kjarvals hin síðari ár, stóra bókin Nes­út­gáfunnar frá 2005, fræði­greinar í tíma­ritum og bókum, að ó­gleymdum sam­sýningunum „um“ Kjarval, sem haldnar hafa verið að Kjarvals­stöðum, til dæmis sýning og bók þeirra Æsu Sigur­jóns­dóttur og Kristínar Guðna­dóttir um riss­myndir lista­mannsins, sýning Eggerts Péturs­sonar um blóma­myndir hans og nokkrar aðrar þema­tengdar sýningar hafa af helgað Kjarval, ef svo má segja. Um leið hafa þær fært hann nær sam­tíma okkar.

Þetta hefur orðið til þess að síðari tíma lista­menn hafa í auknum mæli farið að mæla sig við hann og arf­leifð hans, með­vitað eða ó­með­vitað, án þess þó að gangast að fullu undir þau við­horf sem birtast í myndum hans. Þarna er Einar Gari­baldi klár­lega mikils­verður undan­fari með tákn­myndir sínar af „kjarvölskum“ stöðum.

Frjóir læri­sveinar

Lista­safn Reykja­víkur hefur nú efnt til eins konar út­tektar á sam­ræðum og tengingum í þessa veru milli yngri lista­manna og Kjarvals, undir nafninu „Ei­líf endur­koma“, sem dreifist um gjör­völl salar­kynni Kjarvals­staða. Þetta er í stuttu máli afar vel heppnuð sam­sýning, á­ræðin, and­rík og krefjandi fyrir huga og til­finninga­líf skoðandans, auk þess sem hún eykur ó­tví­rætt á skilning hans jafnt á hugar­heimi „meistarans“ og „læri­sveinanna“. Að vísu kemur fyrir að skipu­leggj­endur fara of­fari í leit sinni að sam­tíma­list sem hæfir til­efninu. Til dæmis er ég ekki viss um að mynd­röð Gjörninga­klúbbsins, sem sýnir furðu­lega upp­á­klæddar konur, nánast framandi verur, taka þátt í björgunar­að­gerð á ís­lenskri sjávar­strönd, sé hér á réttum for­sendum. Verurnar sem iðu­lega vakna til lífsins í lands­lags­myndum Kjarvals eru aldrei framandi heldur hold­gervingar um­hverfis síns.

Enn og aftur virðist síðan brýnt að láta verk Ragnars Kjartans­sonar fljóta með á hverri sam­sýningu, hvert sem sam­hengið er. Því eru hér til sýnis nokkrar illa málaðar myndir eftir hann af hrauni – skráðar sem gjörningur.

Ýmis­legt annað á þessari sýningu er hins vegar svo vel til fundið að á­horf­andinn grípur andann á lofti. Upp­lýst eininga­verk Ólafs Elías­sonar kallast þráð­beint á við sneið- og kubba­myndir Kjarvals af ís­lensku lands­lagi, sem er ein að­ferð lista­mannsins til að greina byggingar­stíl náttúru­legra við­fangs­efna. Í námunda við þann hluta sýningarinnar er líka vídeó­verk Sigurðar Guð­jóns­sonar, sem alveg ó­vænt varpar ljósi á „Krítík“, risa­stórt og frægt mál­verk Kjarvals. Fyrir vikið leyfist okkur nú að skynja það sem túlkun á ó­þrot­legri við­leitni lista­mannsins til að ná tökum á um­hverfi sínu. Firna löng „nætur­mynd“ Kristjáns Guð­munds­sonar talar síðan beint til rökkur­myndanna sem Kjarval gerir af Þing­völlum.

Rúsínuna í pylsu­endanum er svo að finna í öðrum enda austur­salar, þar sem þrenns konar leiðir eru notaðar sam­tímis til að lýsa náttúru­skoðun Kjarvals: magnað mál­verk af ís­lenskum berangri, nokkur máluð og sam­skeytt til­brigði um til­tekið lands­lags­stef, og loks allt­um­lykjandi mynd­bands­verk af inn­viðum hrauns eftir Steinu Va­sulka. Hér er við hæfi að róma sýningar­hönnun Axels Hall­kels Jóhannes­sonar – öðru nafni Langa Sela.

Af­kom­endur í nú­tíð

Fleira á sýningunni ætti að gleðja glöggan á­horf­anda. Páll Guð­munds­son frá Húsa­felli, kannski einn helsti „af­komandi“ Kjarvals í mynd­list nú­tíðar, fær hér að njóta sín við réttar að­stæður. Ég var ekki alveg eins sann­færður um hlut­verk Egils Sæ­björns­sonar. Fyrir það fyrsta er hann helst til pláss­frekur í þessu sam­hengi. En lýsing að­stand­enda á „lifandi“ efnis­heimi þeirra beggja, Kjarvals og Egils, varð til þess að telja mér hug­hvarf. Þeir félagarnir, Egill, Ūgh og Bõögâr mega alveg vera með.