Yfirvöld í eyríkinu Samóa í Eyjaálfu hafa lagt blátt bann við því að kvikmyndin Rocketman, sem fjallar um lífshlaup tónlistarmannsins Elton John, verði sýnd í kvikmyndahúsum þar í landi.

Ástæðan er sú að í myndinni eru senur sem sýna kynlíf söngvarans og annarra karlmanna. Að sögn Leiataua Niuapu Faaui, fulltrúa samóskra yfirvalda, eru sum atriði myndarinnar brot á landslögum þar.

Samkynhneigð er nefnilega refsiverð á Samóa og getur leitt af sér allt að sjö ára fangelsisdóm. „Þetta er góð saga, um einstakling sem er að reyna að fóta sig í lífinu,“ sagði Faaui hins vegar í samtali við fjölmiðla á Samóa.

Samóar eru ekki fyrstir til að skipta sér af efni myndarinnar. Rússnesk yfirvöld ritskoðuðu þannig myndina með því að klippa út senur sem sýna kynlíf karlmanna og eiturlyfjaneyslu.

Elton John gagnrýndi ákvörðunina í kjölfarið og sömuleiðis Taron Egerton sem túlkar tónlistarmanninn í myndinni. Rocketman var frumsýnd snemma mánaðar og hefur nú þegar rakað inn 101 milljón dollara í miðasölutekjur.

Frétt Associated Press.