Björn Birgisson, samfélagsrýnir og eldri borgari í Grindavík, segir fréttavikuna mikið hafa einkennst af Framsóknarflokknum sem virtist víðast hvar vinna á í kosningunum.

„Vann stórsigur í Reykjavík bara út á það eitt að vera með uppgjafa­fréttamann við stýrið og boða breytingar, en enginn vissi nákvæmlega hvaða breytingar og spurður nánar út í þær lítur fréttamaðurinn út eins og í miðri gúrkutíð – ekkert að frétta!

Hér í Grindavík er það helst af Framsóknarflokknum að frétta að hann sveik oddvitann sinn til síðustu fjögurra ára og ætlaði sér stóra hluti í kosningunum, en uppskeran varð eins og til var sáð – langt undir væntingum.“

Björn segist hafa gripið til örþrifaráða þegar síðasta jarðskjálftahrina gekk yfir Grindavík og var við það að ganga fram af honum og fleira fólki. „Þá gerði ég samkomulag við Kölska þess efnis að hann hleypti eldgosi upp, en tæki jarðskjálftana niður til sín. Hann stóð við sitt og eldgosið við Fagradalsfjall varð að veruleika og jörðin hætti að skjálfa. Nú veit ég ekki hvort Kölski er til í frekari samningagerð, en ég er það.“

Þá víkur Björn að stærstu póli­tísku tíðindunum í bænum. „Þegar allir héldu að Miðflokkurinn væri kominn á líknardeild á landsvísu gerðu liðsmenn hans í Grindavík sér lítið fyrir og gjörsigruðu andstæðinga flokksins með svo eftirminnilegum hætti að minnti helst á 14-2 sigur Dana um árið! Nú eru þeir sem lentu í tapliðinu að úthugsa leiðir til að sigurvegari kosninganna fái ekki að njóta sigursins í neinu. Þannig virkar íbúalýðræðið víst hjá sumu fólki!“