Ber­dreymi, nýjasta kvik­mynd leik­stjórans Guð­mundar Arnars Guð­munds­sonar, landaði sínum fjórðu kvik­mynda­há­tíða­verð­launum á stuttum tíma á al­þjóð­legu kvik­mynda­há­tíðinni í Transilvaníu um helgina.

Þar veitti dóm­nefnd Ber­dreymi næst­stærstu verð­laun há­tíðarinnar, 3.500 evra leik­stjórnar­verð­launin fyrir, eins og það er orðað, þann trú­verðuga, frum­lega og ljómandi heim sem Guð­mundur Arnar skapar í myndinni. Guð­mundur hlaut einnig leik­stjórnar­verð­launin á há­tíðinni 2017 fyrir myndina Hjarta­steinn.

„Það er gaman að fara á sömu há­tíð og fá aftur verð­laun,“ segir Guð­mundur Arnar, en Ber­dreymi hefur verið að gera það gott á kvik­mynda­há­tíðum víða um lönd á síðustu dögum. Þannig hlaut leik­hópur myndarinnar aðal­verð­launin, Gullna eplið, á Kranj Actors kvik­mynda­há­tíðinni í Slóveníu.

Þá voru aðal­leikarar myndarinnar einnig verð­launaðir á FICG, Festi­val Interna­cional de Cine en Guada­la­jara í Mexíkó. Þar var Guð­mundur Arnar við­staddur og tók við verð­laununum fyrir hönd leikaranna. Þá hlaut Ber­dreymi einnig verð­laun ítalskra kvik­mynda­gagn­rýn­enda á Biografilm kvik­mynda­há­tíðinni, í keppnis­flokknum Europe Beyond Bor­ders.

„Þetta er rosa skemmti­legt. Sér­stak­lega af því að þetta er í svo­lítið mis­munandi löndum, Mexíkó, Slóveníu, Ítalíu og svo núna Rúmeníu. Þegar maður fær svona viður­kenningu frá öllum þessum stöðum segir það manni að myndin er að tala við fólk og tengir við ein­hvern sam­mann­legan tón,“ heldur Guð­mundur Arnar á­fram.

Heldurðu að það stefni í að þú sért að verða þannig kvik­mynda­gerðar­maður að upp­hefðin komi að utan?

„Mér finnst upp­hefðin alveg koma hérna á Ís­landi líka,“ segir leik­stjórinn og hlær hæverskur. „En við erum náttúr­lega að gera myndir til þess að fá dreifingu úti og þá er mikil­vægt fyrir okkur að sýna hana á kvik­mynda­há­tíðum.“