Berdreymi, nýjasta kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar, landaði sínum fjórðu kvikmyndahátíðaverðlaunum á stuttum tíma á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transilvaníu um helgina.
Þar veitti dómnefnd Berdreymi næststærstu verðlaun hátíðarinnar, 3.500 evra leikstjórnarverðlaunin fyrir, eins og það er orðað, þann trúverðuga, frumlega og ljómandi heim sem Guðmundur Arnar skapar í myndinni. Guðmundur hlaut einnig leikstjórnarverðlaunin á hátíðinni 2017 fyrir myndina Hjartasteinn.
„Það er gaman að fara á sömu hátíð og fá aftur verðlaun,“ segir Guðmundur Arnar, en Berdreymi hefur verið að gera það gott á kvikmyndahátíðum víða um lönd á síðustu dögum. Þannig hlaut leikhópur myndarinnar aðalverðlaunin, Gullna eplið, á Kranj Actors kvikmyndahátíðinni í Slóveníu.
Þá voru aðalleikarar myndarinnar einnig verðlaunaðir á FICG, Festival Internacional de Cine en Guadalajara í Mexíkó. Þar var Guðmundur Arnar viðstaddur og tók við verðlaununum fyrir hönd leikaranna. Þá hlaut Berdreymi einnig verðlaun ítalskra kvikmyndagagnrýnenda á Biografilm kvikmyndahátíðinni, í keppnisflokknum Europe Beyond Borders.
„Þetta er rosa skemmtilegt. Sérstaklega af því að þetta er í svolítið mismunandi löndum, Mexíkó, Slóveníu, Ítalíu og svo núna Rúmeníu. Þegar maður fær svona viðurkenningu frá öllum þessum stöðum segir það manni að myndin er að tala við fólk og tengir við einhvern sammannlegan tón,“ heldur Guðmundur Arnar áfram.
Heldurðu að það stefni í að þú sért að verða þannig kvikmyndagerðarmaður að upphefðin komi að utan?
„Mér finnst upphefðin alveg koma hérna á Íslandi líka,“ segir leikstjórinn og hlær hæverskur. „En við erum náttúrlega að gera myndir til þess að fá dreifingu úti og þá er mikilvægt fyrir okkur að sýna hana á kvikmyndahátíðum.“