Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 voru afhent í 32. sinn á Bessastöðum í gærkvöld og þótt fullkomin eining muni seint ríkja um tilnefningar og niðurstöður dómnefnda er jafnan kátt í forsetahöllinni á Bessastöðum þegar markaðsvænum gullmiðanum er útdeilt til verka sem þykja skara fram úr í þremur flokkum: skáldverka, barna- og ungmennabóka og fræðibóka og rita almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt 1989 þegar þau féllu ljóðskáldinu Stefáni Herði Grímssyni í skaut fyrir Yfir heiðan morgun: ljóð '87-'89.

„Eins og aðrir samkvæmisleikir eru þessi verðlaun mjög nauðsynleg og þau eru náttúrlega bæði góð en aukinheldur misvitur. Eins og allt samtíðarhjal,“ segir Valdimar Tómasson, ljóðskáld, bókasafnari og ótæmadi fróðleiksbrunnur um íslenskar bókmenntir.

Valdimar Tómasson. Fréttablaðið/Anton Brink

„Mér fannst náttúrlega mjög ánægjulegt að strax í vöggu verðlaunanna hafi Stefán Hörður Grímsson fengið þau fyrir Yfir heiðan morgun. Það var náttúrlega bæði svona viss vottur fyrir ljóðlistina og heiður fyrir aldrað ljóðskáld sem var vel að þessu komið.“

Skáldsögur og ljóð deila takmörkuðu rými í flokki skáldverka þar sem Valdimar finnst stundum heldur halla á ljóðið. „Ljóðin eru ekki eins mikil markaðsvara þannig að gullmiðinn á þau er ekki eins ákjósanlegur upp á að ná upp sölutölum. Það eru meiri líkur til þess að hann geti selt skáldsöguna meira,“ segir Valdimar og teflir fram tveimur öndvegisskáldum til viðbótar sem telja má óumdeild.

„Heiðursmenn eins og Hannes Pétursson og Þorsteinn frá Hamri hafa verið sæmdir þessu. Hannes 1994 fyrir Eldhyl sem kom út 1993 og Þorsteinn 1993 fyrir Sæinn sofandi.

Einar Már Guðmundsson.

Utangátta englar

Þegar talið berst að skáldsögunni leggur Valdimar áherslu á að hann er „bundnari ljóðheimum“, en rifjar síðan upp að Englar alheimsins sem komu út 1993, „voru ekki einu sinni tilnefndir,“ en skiluðu Einari síðan bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs árið 1995. „Fæst orð hafa minnsta ábyrgð,“ segir hann, þegar hann er spurður álits á einhverri eftirminnilegustu og umdeildustu sniðgöngu síðari ára. Einar hlaut síðan bókmenntaverðlaunin 2015 fyrir skáldsöguna Hundadaga.

Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, leitar aðspurð ekki langt yfir skammt í þessum efnum. „Andri Snær var ekki tilnefndur í fyrra í fræðiritaflokknum fyrir Um tímann og vatnið. Það var skandall! Hann hefði átt að fá þau verðlaun.“

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og þau íslensku eru stundum í takt og þannig hlaut Fríða Á. Sigurðardóttir þau bæði fyrir Meðan nóttin líður frá 1990 og Auður Ava hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016 fyrir skáldsöguna Ör og síðan verðlaun Norðurlandaráðs 2018.

Auður Ava fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016 og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör. Fréttablaðið/Anton Brink

Klikkað stuð

Árið 2013 var í fyrsta sinn tilnefnt sérstaklega í flokki barna- og unglingabóka og þá stóð Andri Snær Magnason uppi með sigurvöndinn í höndunum fyrir Tímakistuna.

Gunnar Helgason réði sér vart fyrir kæti á Bessastöðum tveimur árum síðar þegar Mamma klikk! skilaði honum verðlaununum í nýja flokknum og Hildur Knútsdóttir náði sögulegum árangri 2016 þegar hún varð fyrsti rithöfundurinn sem var tilnefndur fyrir tvær bækur sama árið.

Þá var Hildur tilnefnd, ásamt Þórdísi Gísladóttur, fyrir Doddi: bók sannleikans í flokki barna- og unglingabóka, þar sem hún hlaut síðan verðlaunin fyrir Vetrarhörkur.

Þá vakti teiknimyndasagan Vargöld – fyrsta bók einnig athygli í þessum sama flokki fyrir að vera fyrsta teiknimyndasagan sem hlýtur tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Andri Snær hlaut verðlaunin í sérstökum flokki barna- og unglingabóka en missti af almennu fræðalestinni 2019. Fréttablaðið/Valli
Gerður Kristný stóð vörð um ljóðið og hlaut verðlaunin í skáldskaparflokknum 2011 fyrir Bóðhófni. Helgi Hallgrímsson fékk þá fræðaverðlaunin fyrir Sveppabókina. Fréttablaðið/Stefán