Heimildakvikmyndin Eins og málverk eftir Eggert Pétursson, var frumsýnd 15. mars þegar öll viðvörunarljós vegna COVID-19 voru farin að blikka með látum. Myndin var á dagskrá Stockfish-kvikmyndahátíðarinnar og aðstandendur hennar héldu sínu striki ótrauðir þótt veiran blési kröftuglega á móti.

Hátíðin mátti sín þó ekki mikils þegar samkomubannið var sett á og hún gufaði hálfpartinn upp í kófinu. „Ég var eiginlega kominn á þá línu að fresta frumsýningu, en vildi leyfa þeim að ráða því og þetta voru nú samt allavega 120–130 manns sem komu á frumsýninguna mína,“ segir leikstjórinn og framleiðandinn Gunnlaugur Þór Pálsson og viðurkennir fúslega að hann hafi verið hikandi, en ákveðið að tefla á tæpasta vað með Stockfish-fólkinu.

„Myndin var samtals sýnd þrisvar sinnum, en síðan koðnaði allt niður í vírus og svo náttúrlega kom samkomubannið þremur tímum eftir frumsýningu, eins og sagt er,“ heldur Gunnlaugur áfram og bætir við að til að bæta gráu ofan á svart sé tvísýnt hvort yfirleitt takist að opna Bíó Paradís aftur að loknu samkomubanninu.

Skrýtnir tímar

„Þetta eru rosalega skrýtnir tímar og ég var búinn að vonast til að geta kannski gert díl við Bíó Paradís um að sýna hana kannski svona tvisvar um helgi í einhvern tíma eða eitthvað svoleiðis,“ segir Gunnlaugur um myndina sem á 74 mínútum fer yfir feril og lífshlaup listmálarans Eggerts Péturssonar, auk þess sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur gerir grasafræðilega úttekt á flórunni í verkum listamannsins.

„Ég geri sérstaklega nokkrum lykilmálverkum hans góð skil, svo og helstu málverkum frá 1992 til dagsins í dag og það er rosalega gaman að sjá myndina á stóru tjaldi. Hljóðið er líka mjög skemmtilegt og tónlistin fín.“

Stokkið í streymið

„Myndin hefur verið aðgengileg á gagnaveitum Símans og Vodafone um nokkurra vikna skeið,“ segir Gunnlaugur, sem sá sér þann kost vænstan að leyfa myndinni þó að njóta sín á efnisveitunum, þegar hann sá ekki fram á að sýningar í kvikmyndahúsi gætu orðið fleiri.

„Stóra málið með þessa mynd er náttúrlega bara að geta horft á þessa fallegu náttúru og fallegu blóm í sjónvarpinu þegar ekkert annað býðst og það er bara frábært,“ segir Gunnlaugur, nokkuð sáttur við að hörfa af breiðtjaldi á skjáinn.

„Ég veit að vísu ekki alveg hvernig það gengur og ég er búinn að selja sýningarréttinn til RÚV, en ég veit ekkert hvenær hún verður sýnd þar,“ segir leikstjórinn, sem telur myndina enn eiga heilmikið inni.

Olíumálverk af norsku vorblómi eftir Eggert Pétursson.

„Eggert hélt síðast yfirlitssýningu á Íslandi á Kjarvalsstöðum 2007. Hún var opin í nokkra mánuði og ég held að hátt í 70.000 manns hafi komið á þá sýningu og hann á alveg sinn hóp,“ bendir Gunnlaugur á, með fyrirvara um að vissulega sé eðlismunur á málverka- og kvikmyndasýningum.

„Hann er alveg rosalega ánægður með myndina og síðan hefur hún fengið bara náttúrlega fín ummæli eins og við segjum,“ bætir kvikmyndagerðarmaðurinn við um viðbrögð viðfangsefnisins og gagnrýnenda.

Sterk náttúrutenging

„Það sem vakti svolítið fyrir mér þegar ég var að framleiða myndina var þetta náttúrustef,“ segir Gunnlaugur Þór um grunnhugmyndina að baki myndinni, tenginguna við náttúruna og blóm hennar í málverkum Eggerts.

Fjölbreytni íslensku flórunnar birtist glöggt í málverkum Eggerts og kvikmyndin gefur þannig innsýn í íslenskt plöntulíf gegnum myndir Eggerts, fyrirmyndir hans og þróunina í verkunum.

„Eggert er náttúrlega náttúruverndarsinni og Þóra Ellen er það náttúrlega líka,“ segir Gunnlaugur, en við tökur myndarinnar fór Þóra Ellen með honum víða. „Við Eggert fórum suður í Herdísarvík, við gengum um svæðið ofan við sumarbústaðinn hans í Bláskógabyggð, við fórum í Skaftafell og vorum líka undir Eyjafjöllunum. Svo fórum við í Þjórsárver og norður á Tröllaskaga,“ sagði hún meðal annars í nýlegu viðtali við Fréttablaðið.

„Mitt mottó í lífinu er svolítið bara þannig að við þurfum að ganga vel um, vera skynsöm í þessum loftslagsmálum og skila þessu í lagi til barnanna okkar og barnabarna. Það er bara stóra málið og ég hef ofsalega mikla trú á ungu kynslóðinni.“

Eins og málverk eftir Eggert Pétursson var rúm tvö ár í framleiðslu en aðaltökurnar fóru fram síðastliðið sumar. Sjónhending og Axfilms eru aðalframleiðendur í „góðri samvinnu við Kvikmyndamiðstöð Íslands“, eins og Gunnlaugur orðar það og gerir ekki lítið úr vonbrigðunum sem fylgja því að geta ekki leyft myndinni að njóta sín lengur í sínu rétta umhverfi á breiðu tjaldi í bíósal.

Horft til haustsins

Hann þvertekur þó aðspurður fyrir að það sé freistandi að leggja bara árar í bát við þetta mótlæti. „Nei, þvert á móti. Ég er bara að undirbúa næstu verkefni og sjá hvernig það gengur.

Ég er líka í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð að reyna að koma myndinni á kvikmyndahátíðir út um allar trissur. En það allt er auðvitað líka rosalega mikilli óvissu háð allt saman,“ segir Gunnlaugur og bendir á að þar sé heldur ekki á vísan að róa þótt hann bindi vonir við að það rætist úr með haustinu.

„Svo náttúrlega er ég búinn að reyna að ýta þessu hingað og þangað í sölu í útlöndum, en maður er bara góður ef maður fær svar einhvers staðar. Það er bara allt í mínus. Það er bara þannig.“