Kjarninn í þessari byltingu er, að sögn Elínar, meðal annars aukin hnattvæðing, tæknibreytingar, sjálfvirknivæðing og nýting gervigreindar, sem krefst nýrrar þekkingar og færni af einstaklingum á vinnumarkaði.

„Sú hraða þróun sem hefur átt sér stað felur í sér breytingu á störfum. Ný og spennandi störf myndast og önnur hverfa. Þessar breytingar hafa leitt til aukinnar framleiðni, bættra lífskjara, meira jafnvægis milli vinnu og einkalífs og aukinnar verðmætasköpunar,” segir Elín Hlíf Helgadóttir, eigandi og stofnandi 20/20 Ráðgjafar, MBA, mannauðs- og stjórnendaráðgjafi og ACC vottaður ráðgjafi.

„Fyrirtæki þurfa að horfa til framtíðar, huga að því hvaða störf verða til í framtíðinni og hvetja starfsmenn til bæta við sig þekkingu, til að geta sinnt breyttum eða nýjum störfum. Breytt vinnuumhverfi hefur leitt til þess að samband starfsfólks og vinnustaða er með öðrum hætti. Fyrirtæki og stofnanir eru í auknum mæli að úthýsa að hluta til eða í heild sérfræðistörfum, til að geta einbeitt sér að kjarnastarfsemi og þannig skapast ný störf, “ segir Elín.

Elín segir fyrirtæki þurfa að horfa til framtíðar og hvetja starfsfólk til að bæta við sig þekkingu.
Mynd/Aðsend.

Mikilvægi símenntunar

„Fyrirtæki og einstaklingar þurfa að huga að framþróun og símenntun til vera samkeppnishæf á markaði og bera sameiginlega ábyrgð á að nauðsynleg þekking og færni sé til staðar,“ segir Elín og bætir við: „Aðilar vinnumarkaðarins verða að vera reiðubúnir að þróast í takti við breytingarnar, viðhalda núverandi þekkingu, ásamt því að bæta við sig nýrri þekkingu og færni. Erlendar rannsóknir sýna að þeir starfsmenn sem búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum, eru skapandi, hafa getu til að leysa flókin verkefni, búa yfir tilfinningagreind og geta beitt gagnrýnni hugsun, verði sífellt eftirsóttari starfsmenn. Möguleikarnir á að þróa færni sína verða stöðugt fjölbreyttari og góð ráðgjöf verður sífellt mikilvægari til að val og ákvarðanir verði sem bestar. Þá er sífellt mikilvægara að efla samskiptahæfni ekki síður en að efla almenna þekkingu.“

Þekking til framtíðar

Breytingarnar sem eiga sér stað í atvinnulífinu kalla, að sögn Elínar, á sífellda aðlögun einstaklinga, fyrirtækja og stofnana til að þau verði ekki undir í breytingunum.

„Stjórnendur fyrirtækja þurfa að huga vel að þjálfun mannauðs, byggja undir og efla nýsköpun ásamt sí- og endurmenntun. Það er sameiginlegt verkefni aðila á vinnumarkaði að auka og viðhalda þekkingu og færni til að halda samkeppnishæfni á markaði. Því er nauðsynlegt að verja ákveðnum tíma starfsmanna í sí- og endurmenntun. Fjárfesting í þekkingu og færni er því mikilvægt veganesti til þróunar fyrir fyrirtæki og starfsmenn, “ segir Elín.

„Að lokum vil ég segja: Verum samkeppnishæf og opin fyrir nýjum tækifærum á vinnumarkaði til aukinnar verðmætasköpunar fyrir okkur sjálf og íslenskt atvinnulíf.“