Nýjasta útspil Samherja, ásakanir á hendur Helga Seljan um skjalafölsun og nýr sjónvarpsþáttur á Youtube, virðast ekki hafa sannfært marga á samfélagsmiðlinum Twitter um ágæti fyrirtækisins.

Líkt og fram kom sökuðu Samherjamenn fréttamannninn í gær um að hafa falsað gögn í tengslum við Kastljósþátt um Seðlabankamálið svokallaða árið 2012. RÚV, sem og Helgi sjálfur, höfnuðu í gær ásökunum Samherja.

Eins og alþjóð man líklegast eftir gegndi Helgi lykilhlutverki í rannsókn Kveiks á starfsemi Samherja í Namibíu en þátturinn var sýndur í nóvember síðastliðnum. Samherji birti sinn eigin þátt á Youtube í gær þar sem ásakanir á hendur Helga voru birtar auk þess sem þær birtust á forsíðu Fréttablaðs gærdagsins.

„Ég trúi bara ekki öðru en að Helgi Seljan hafi skáldað upp þetta Samherjafyrirtæki og þennan fáránlega forstjóra, þetta er of bjánalegt lið til að vera til í raun og veru,“ skrifar Þorsteinn Guðmundsson, grínisti, á Twitter um málið í gær og uppsker 223 viðbrögð.

Aðrir taka í svipaðan streng og gera gys að málinu. „Aldrei hefði mig grunað að strákarnir í Samherja væru síðan heiðarlegir eftir allt saman, þá fær maður sér rækjur og ufsa í kvöld,“ skrifar grínistinn Sigurður Bjartmar léttur.

„já ok samherjamenn eru þá bara algjörir kings eftir allt saman ??“ spyr Matthías Aron í kaldhæðni. Öðrum er hreint ekki hlátur í hug vegna ásakana Samherjamanna á hendur Helga Seljan.

„Við unnum saman í mörg ár ég og @helgiseljan,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn Freyr Eyjólfsson. „Hann er einn heiðarlegasti og duglegasti fjölmiðlamaður sem ég þekki. Hann er engum háður. Hann er ekki í neinu stríði við neinn. Frekar næs gaur. Bara vinna vinnuna sína - segja fréttir og upplýsa.“

Sigríður Rut Júlíusdóttir svarar Frey: „Dæmigert milljónera síkópata frávarp að reyna að gera heimildamannaverd tortryggilega. Helgi er topp fagmaður. Hef ítrekað orðið vitni að því. Þetta hlægilega búmerang er á trump mælikvarða. Algert fret.“

„Fyrsti Samherjaþátturinn er veik tilraun til að kasta rýrð á Helga Seljan. Það er merkilegt að það skuli vera lokað fyrir athugasemdir á myndbandið eins og þeir hafi ekki áhuga á umræðunni eða skoðunum almennings,“ skrifar Arnór Bogi.

Fleiri tíst um Samherja og nýjan þátt fyrirtækisins má sjá hér að neðan: