Helena er menntuð sem útstillingarhönnuður og starfar sem aðstoðarverslunarstjóri hjá Rúmfatalagernum á Bíldshöfða. Hún er gift Gunnari Bjarnasyni og saman eiga þau þrjú börn sem fæddust á þremur árum.

Baðkarið vinsælast á heimilinu

Helena var búsett erlendis um árabil og síðar aftur ásamt fjölskyldunni. „Ég bjó í New York og Flórída í sjö ár og síðan bjuggum við fjölskyldan saman í Istanbúl, Tyrklandi í tvö ár. Til gamans má segja frá því að við keyptum síðustu íbúðina okkar án þess að hafa skoðað hana og ég keypti allt inn í hana í gegnum netið,“ segir Helena létt í bragði.

Kaupin á núverandi heimili voru aftur á móti töluvert betur undirbúin enda var fjölskyldan þá búsett á Íslandi. „Við fjölskyldan fluttum hingað í mars 2017 og bjuggum áður í Engjahverfinu í Grafarvogi. Útsýnið og staðsetningin heillaði okkur ásamt stærðinni á húsinu sem var hæfileg.“

Helena og fjölskylda voru búsett í Tyrklandi þegar þau keyptu síðustu íbúð og gátu þar af leiðandi ekki skoðað hana áður. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hvenær var húsið byggt og á það sér einhverja sögu?

„Húsið er byggt árið 1999. Húsið á sér kannski ekki sérstaka sögu en samheldni nágranna í botnlanganum var umtöluð.“

Hvernig myndirðu lýsa andrúmsloftinu/stílnum á heimilinu?

„Hlýir litir en þó ekki of dökkir og nokkuð nútímalegt heimili.“

Hvernig list er á heimilinu og hvernig veljið þið hana inn á heimilið?

„Það er engin sérstök stefna í listum en við höfum reynt að hafa opin augu fyrir hlutum sem passa vel inn í umhverfið á heimilinu.“

Heimili Helenu og fjölskyldu er í senn hlýlegt og nútímalegt. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hver er uppáhaldsstaðurinn á heimilinu?

„Eldhúsið er mest notað en baðkarið er vinsælast þar sem við förum mikið í bað.“

En uppáhaldshluturinn?

„Uppáhaldshluturinn minn á heimilinu er skál sem hefur fylgt mér síðan ég bjó í Bandaríkjunum. Hún lifði flutninginn af og hefur fylgt mér síðan.“

Eruð þið að safna einhverjum hlut eða hlutum?

„Ég hef tekið ástfóstri við Iittala Kastehelmi kertastjaka og mig sárvantar appelsínugula.“

Birtan flæðir inn um stóra stofugluggana.

Pinterest var mikið skoðað

Helena og Gunnar gerðu nýverið upp eldhúsið. Þegar Helena er spurð hvers vegna þau hafi ákveðið að fara í það verkefni segir hún innréttinguna sem var úr kirsuberjavið með bláum hurðum ekki hafa verið í þeirra stíl en þau hafi þó haldið grunnskipulaginu að mestu.

Hvar fenguð þið hugmyndir eða innblástur?

„Við vildum hafa innréttinguna háglans hvíta þar sem við vorum með sömu innréttinguna á gamla heimilinu okkar. Pinterest var mikið skoðað. Þar sem við erum með gráar flísar á öðrum rýmum þá héldum við því í eldhúsinu. Koksgrá tæki urðu fyrir valinu að háfnum undanskildum og við enduðum með tvo bakaraofna og 80 cm helluborð.“

Svona var eldhúsið fyrir breytingarnar. MYND/HELENADAGMAR
Nýja eldhúsið er meiri háttar, stílhreint og fágað. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hvað tóku framkvæmdirnar langan tíma? Fylgdi þeim mikill kostnaður eða umstang?

„Ferlið tók um það bil tvo mánuði frá því að við byrjuðum að rífa niður eldhúsið þangað til borðplatan kom. Mesta umstangið var í loftinu þar sem við ákváðum að hækka loftið með tilheyrandi raski og breyta raflögnum. Við fórum vel fram úr kostnaðaráætlun þar sem við gerðum töluverðar breytingar. Við fórum í tvo ofna, ætluðum að hafa einn, úr 60 cm helluborði í 80 cm, ætluðum ekki að hafa flæðandi granít upp á vegg en enduðum í 40 cm upp á vegg. Við enduðum í mun dýrari vaski en við gerðum ráð fyrir.“

Hafið þið staðið í frekari framkvæmdum og hverjum þá?

„Við erum búin að skipta um gólfefni á öllu húsinu og skipta um hurðar. Endurnýja gestabaðherbergið og síðasta sem við gerðum áður en við tókum eldhúsið var að taka þvottahúsið í gegn. Rýmið sem við eigum eftir er baðherbergið.“

Helena segir mesta umstangið hafa verið að hækka loftið en hér má sjá mynd af ferlinu.
Umstangið var þó vel þess virði eins og sjá má á nýja loftinu sem kemur ákaflega vel út.

Fjölskyldan vill heitan pott

Helena lumar á nokkrum ráðum fyrir þau sem hyggjast fara í framkvæmdir.

„Það getur verið kostur að vera búin að búa í húsinu áður en farið er í stórar framkvæmdir. Til að mynda ætluðum við að opna eldhúsið þegar við fluttum inn en eftir að hafa verið hér í um tvö ár fannst okkur betra að vera með lokað eldhús.“

Þá ráðleggur hún fólki að reyna að vera með góða aðgerðaáætlun en samt að vera opin fyrir breytingum ef þess þarf. Og síðast en ekki síst gefa sér nægan tíma í verkið.

Þegar Helena er spurð að því hvað sé efst á óskalistanum fyrir heimilið um þessar mundir segir hún skiptar skoðanir á því meðal fjölskyldumeðlima. „Ég er alltaf með falleg ljós á radarnum sem næsta hlut á heimilið. En fjölskyldan er meira að bíða eftir heitum potti á pallinn.“