Ég ætlaði mér í sjálfu sér aldrei að safna englum en það má segja að englarnir safnist að mér, segir Halldóra Vilhjálmsdóttir sem á eitt stærsta englasafn landsins en það telur hátt í 200 engla af öllum stærðum og gerðum.

Elsti engillinn er kominn á fimmtugsaldurinn og hefur fylgt Halldóru frá barnæsku.

„Það er vængjaður kettlingur sem annar bræðra minna gaf mér þegar við vorum lítil og mér þykir undurvænt um og fylgir mér enn. Englakisinn sá er fyrsta englastyttan sem ég eignaðist um dagana en síðan hefur stöðugt bæst í safnið,“ segir Halldóra, umkringd englakór í stofunni sinni heima á Akureyri.

„Það hefur reynst þrautin þyngri að koma englasafninu haganlega fyrir þannig að hver og einn engill njóti sín og ætli ég þurfi ekki að láta sérsmíða haganlega skápa undir þá.“

Halldóra með tíkina Mollý sem eins og aðrir á heimilinu kann vel við sig í englaskaranum. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Englar koma til hjálpar

Halldóra er leikskólakennari að mennt og lauk framhaldsnámi í sérkennslufræðum. Hún hætti þó störfum í leikskóla eftir að hún fór í baki árið 2014.

„Þá var ég frá vinnu í tvö ár eða þar til ég var beðin um að keyra innanbæjarstrætó hér á Akureyri. Eftir tvö ár hjá Strætó fór ég til starfa hjá Olíudreifingu og hef nú keyrt olíuflutningabíla um gjörvallt Norður-, Norðvestur- og Norðausturland í hálft annað ár,“ segir Halldóra sem um nýliðna helgi lagði 1.500 kílómetra að baki þegar hún fór þrjár ferðir austur á Þórshöfn með olíu.

„Ég er ýmist á stórum „trailer“ eða enn lengri tankbíl með beislisvagn í eftirdragi. Það er vissulega kúnst að keyra svo stóra og þunga bíla, sem og að bakka með beislisvagn, því honum er beygt öfugt við það sem vanalegt er með kerrur og vagna. Þá getur verið erfitt að aka olíuflutningabílum á veturna þegar keðja þarf dekkin í snjófargi og hálku en við förum aldrei af stað sé tvísýnt um veður,“ upplýsir Halldóra sem hefur keyrt fyrir Olíudreifingu síðastliðna tvo vetur, og þar starfar líka önnur kona við olíuflutningana.

Margir af englum Halldóru eiga sér hjartfólgnar sögur.

„Ég hef gaman af flakkinu og hef ekið til staða sem ég hafði ekki áður séð. Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt og ég hef fundið stöku engil í safnið á keyrslunni en svo eru náttúrlega alltaf englar í kringum mann, hvort sem maður sér þá eða ekki. Það hef ég oft skynjað og það hefur hjálpað mér, hvort sem það er trúin á engla eða hreinlega englar í mannsmynd sem eru jú þó nokkrir í kringum mann, því oft koma aðilar inn í líf manns þegar mest þarf á að halda.“

Hjartfólginn englaskari

Síðast þegar Halldóra taldi englastytturnar heima voru þær orðnar um 200 talsins en hún er líka með englapúsluspil, englamyndir og fleira sem skartar englum.

„Margir englanna eiga sína sögu og sumir eru mér kærari en aðrir. Þar á meðal eru þrír englar sem dóttir mín gerði handa mér sem lítil stúlka og í nóvember bætir hún við litlum engli í fjölskylduna sem verður mitt fyrsta barnabarn og hún ber undir belti. Aðrir englar eru mér sérstaklega hjartfólgnir því þeir tengjast missi, eins og fagur engill sem ég gaf ömmu minni heitinni þegar hún barðist við veikindi og ég fékk aftur til mín að henni látinni,“ segir Halldóra og lætur fara vel um sig í englafaðmi hvert sem litið er heima.

Halldóra segir englana skapa notalegt andrúmsloft.

„Strákarnir mínir tveir sem enn eru heima gera engar athugasemdir við englaskarann. Ætli það sé ekki líka mikil vernd yfir heimilinu að búa með herskara engla? Allavega fyllist ég vellíðan þegar ég sé fallegan engil. Ég er þó ekki trúaðri en Jón og Gunna í næsta húsi en mér líður vel með englana hér heima sem og þá sem eru í mannsmynd í kringum mig. Ætli safnið sé ekki eins konar áminning um að alls staðar í kringum okkur séu englar, hvort sem maður sér þá eða ekki: englar sem líta til með okkur á einn eða annan hátt,“ segir Halldóra.

Hún er hvergi hætt að safna englum og kaupir sér snotra engla þegar þeir verða á vegi hennar en margir af hennar nánustu hafa líka fært henni engla í safnið.

„Af hverju englar? Jú, ég sækist eftir fegurð þeirra og friðsæld en líka gæsku þeirra og vernd sem allt skapar notalegt andrúmsloft. Englarnir toga mig til sín og eftir að hafa gefið barnungum bræðrasonum mínum engla í tækifærisgjöf hef ég líka keypt eins engla handa sjálfri mér,“ segir Halldóra og hlær.

Halldóra á einnig myndarlegt safn af litlum vínflöskum.

Ósýnilegir englar í bílunum

Í safni Halldóru eru líka litríkir strumpar sem hún hefur notað til að skreyta aðventukrans og svo safnar hún litlum vínflöskum.

„Vísir að flöskusafninu varð til þegar ég keppti í íshokkí í Þýskalandi og margar flöskur bættust við þegar ég starfaði sem dyravörður,“ upplýsir Halldóra sem á yfir 80 flöskur í fórum sínum.

Hún er líka Íslandsmeistari í götuspyrnu og keyrir um á stásslegum mótorfák.

„Ég er svolítil strákastelpa og heillaðist fljótt af bílum og mótorhjólum. Ég á einhverja sautján bikara fyrir mótorhjólaspyrnurnar, varð Íslandsmeistari árið 2015 og lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu árið á undan,“ segir Halldóra sem er þriggja barna móðir en dóttir hennar, sú sem á von á sér, er flutt suður á mölina að læra lögfræði.

„Það er nóg að gera alla daga. Yngri strákurinn fermdist nú síðsumars og ég hlakka mikið til að takast á við ömmuhlutverkið. Ég trega það svolítið að barnabarnið verði fyrir sunnan en mér ætti ekki að verða skotaskuld úr því að skreppa þetta fram og til baka. Það er bara spurning hvort ég geti enn keyrt svona litla bíla,“ segir hún og hlær.

„Nei, það eru engar englastyttur með mér í olíuflutningabílunum, því ég flakka á milli bíla. Kannski ég bæti úr því fyrir veturinn og vona svo sannarlega að veðrin verði ekki eins slæm og þau voru í vetur sem leið. Hvað sem því öllu líður trúi ég og treysti að samferða mér sé engill sem heldur yfir mér verndarhendi í akstrinum. Svo bíða manns iðulega englar í mannsmynd þegar maður kemur í stað. Þannig á ég líka vinkonur og vini sem hafa reynst mér sem englar þegar þannig hefur staðið á í lífinu og það er bæði dýrmætt og ómetanlegt.“

Halldóra stefnir á sérsmíðaðan skáp undir englasafnið.