RIFF, Al­þjóð­leg kvik­mynda­há­tíð í Reykja­vík, verður haldin í 19. sinn dagana 29. septem­ber til 9. októ­ber í Há­skóla­bíó og víðar um borgina. Hrönn Marinós­dóttir, stjórnandi RIFF, kveðst einkar stolt af há­tíðinni sem hélt velli í gegnum allan Co­vid-far­aldurinn þrátt fyrir sam­komu­tak­markanir.

„Við erum búin að halda ein­hverjar út­gáfur af RIFF í allan þennan tíma og erum mjög stolt af því. Við fundum bara leiðir til að gleðja landann og halda há­tíðina en auð­vitað fengum við færri er­lenda gesti. Ég held að það hafi verið tveir er­lendir gestir eitt árið en nú eru þeir vel á annað hundrað, leik­stjórar, blaða­menn, fram­leið­endur og fleiri,“ segir hún.

Að sögn Hrannar ríkir mikil eftir­vænting fyrir komandi há­tíð meðal RIFF-teymisins. Um 25 manns hafa undan­farna mánuði unnið hörðum höndum að undir­búningi, meðal annars hannað nýtt RIFF-app.

„Það sem ég er einna á­nægðust með er hvað að­sóknin á RIFF er búin að vera góð í gegnum tíðina, þrátt fyrir miklar for­tölur í upp­hafi, og ekki síst hvað ungt fólk tekur há­tíðinni vel.“

Opnunarmynd RIFF í ár er Vera eftir Tizza Covi og Rainer Frimmel sem hlaut tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ár.
Mynd/Aðsend

Evrópskar verð­launa­myndir

Á RIFF er lögð rík á­hersla á að sýna evrópskar verð­launa­myndir sem margar hverjar koma hingað beint frá stærstu kvik­mynda­há­tíðum heims.

„Yfir 90 prósent af myndunum sem við sýnum á RIFF eru myndir sem koma ekki annars til landsins, þrátt fyrir að þetta séu verð­launa­myndir frá kvik­mynda­há­tíðunum í Cannes, Fen­eyjum og San Sebastian. Ég held að fólk kunni að meta það,“ segir Hrönn.

Að hennar sögn eru slíkar myndir allt­of fá­tíðar í ís­lenskum kvik­mynda­húsum.

„Þessar myndir eru allt­of lítið í bíó í hefð­bundnum sýningum. Ekki er ég að gera lítið úr Hollywood-myndunum og öllu því sem nær í bíó hér á Ís­landi en það hefur bara komið í ljós að fólk kann að meta fjöl­breytnina og vill geta speglað sig í evrópskum myndum.“

Spænska stórleikkonan Rossy de Palma er heiðursgestur RIFF í ár.
Fréttablaðið/Getty

Opnunar­mynd költ­leik­stjóra

Opnunar­mynd RIFF er kvik­myndin Vera eftir leik­stjóraparið Tizza Covi og Rainer Frimmel sem hlaut verð­laun fyrir besta leik­stjórann og bestu leik­konuna á Al­þjóð­legu kvik­mynda­há­tíðinni í Fen­eyjum í ár.

„Þetta er þriðja myndin sem við sýnum eftir leik­stjórana Tizza Covi og Rainer Frimmel á RIFF. Þau eru svona „költ­leik­stjórar“, hún ítölsk og hann austur­rískur. Þau fengu tvenn verð­laun fyrir myndina í Fen­eyjum þar sem hún var frum­sýnd ný­lega, þannig að við erum nánast fyrsta landið í heiminum sem fær að sýna hana,“ segir Hrönn.

Myndin fjallar um ítölsku leik­konuna Veru Gemma, sem leikur sjálfa sig í myndinni, en hún er dóttir leikarans Giuli­ano Gemma sem var einn þekktasti leikari Ítalíu.

„Hann lék mikið í spagettí­vestrum, var svaka­lega sætur með kú­reka­hattinn og margir þekkja hann. Myndin fjallar svo­lítið um það hvernig er að vera dóttir ein­hvers sem er frægur. Hún er í myndinni hugsan­lega að læra að setja mörk en fólk er svo­lítið að not­færa sér hana af því hún á pening og pabbi hennar heims­frægur,“ segir Hrönn.

Kvik­myndin er svo sterkur miðill og getur haft svo mikil á­hrif.

Stór­leik­kona sækir Ís­land heim

Heiðurs­gestur RIFF í ár er spænska stór­leik­konan Rossy de Palma, músa og sam­starfs­kona leik­stjórans Pedró Almodó­vars til ára­tuga sem kemur meðal annars fram í spjalli með Hall­dóru Geir­harðs­dóttur.

„Við erum búin að vera í sam­tali við Rossy de Palma lengi og unnið að því að hafa fókus á Spán. Það er gaman að sá draumur sé að rætast núna og að við getum fært Spán heim í stað þess að við Ís­lendingar séum alltaf að fara til Spánar. Rossy er náttúr­lega bara ein af þekktustu leik­konum Evrópu. Hún er líka fyrir­sæta og hefur mikið tjáð sig um jafn­réttis­mál og hin­segin­mál,“ segir Hrönn.

Heiðurs­verð­launa­hafar RIFF eru tveir í ár, annars vegar spænski leik­stjórinn Albert Serra og hins vegar sviss­neski kvik­mynda­gerðar­maðurinn Alexandre O. Philippe.

„Albert Serra tók einu sinni mynd á Ís­landi en hann er líka költ­leik­stjóri. Svo­lítið al­var­legri týpa en Rossy en rosa mikils metinn. Hann fær heiðurs­verð­laun RIFF fyrir fram­úr­skarandi list­ræna sýn sem Vig­dís Finn­boga­dóttir ætlar að af­henda. Á sama tíma fær Alexandre O. Phil­ippe líka verð­laun sem verða veitt í mót­töku í Máli og menningu föstu­daginn 30. septem­ber,“ segir Hrönn.

Myndin Stelpna­gengi fjallar um ung­lings­stelpu í Þýska­landi og for­eldra hennar sem hætta að vinna og fara að reka dóttur sína sem eins konar fyrir­tæki.
Mynd/Aðsend

Sér­stakt á­stand í sam­fé­laginu

Þema RIFF þetta árið er dregið saman í eina spurningu: Bak­slag. Hvað í f******** er í gangi? Að sögn Hrannar hefur há­tíðin lagt aukna á­herslu á sam­starf við ó­líka sam­fé­lags­hópa um að nýta á­hrif kvik­mynda­gerðar til að fjalla um brýn mál­efni: „Kvik­myndin er svo sterkur miðill og getur haft svo mikil á­hrif,“ segir hún.

„Í flokknum Önnur fram­tíð erum við með átta heimildar­myndir sem fjalla um hin og þessi sam­fé­lags­legu mál sem snerta okkur öll; sjálf­bærni, jafn­réttis­mál, stríð og svo fram­vegis. Meðal annars sýnum við myndina Stelpna­gengi sem fjallar um ungan á­hrifa­vald, ung­lings­stelpu í Þýska­landi, og for­eldra hennar sem hætta að vinna og fara að reka dóttur sína sem eins konar fyrir­tæki.“

Haldið verður mál­þing í tengslum við myndir í flokknum Önnur fram­tíð þar sem Bogi Ágústs­son frétta­maður mun stýra pall­borðs­um­ræðum og ræða við gesti, svo sem Ólaf Ragnar Gríms­son, Sól­eyju Tómas­dóttur og Ei­rík Berg­mann, um mál­efni á borð við um­hverfis­mál, sjálf­bærni, hin­segin­mál, femín­isma og popúl­isma.

„Myndirnar á RIFF eru í fyrsta lagi skemmti­legar en margar þeirra hafa á­kveðinn boð­skap, þannig að þú kannski labbar út af sýningu að­eins víð­sýnni og veist að­eins meira,“ segir Hrönn.

Auk hefð­bundinna kvik­mynda­sýninga verða ýmsir sér­við­burðir á dag­skrá RIFF á borð við Sund­bíó þar sem Sund­höll Reykja­víkur verður breytt í The Truman Show og Hella­bíó þar sem nýjasta Múmí­nálfa­myndin og hryllings­myndin The Descent verða sýndar í Raufar­hóls­helli.