Sam­fé­lags­miðlar nötra eftir á­kvörðun Sky Lagoon um að vísa Diljá Sigurðar­dóttur upp úr lóninu fyrir að vera ber að ofan og neitað að hylja
brjóst sín. Líkt og greint var frá um helgina fór Diljá í lónið með kærasta sínum að fagna tveggja ára sam­bands­af­mæli, sagðist hún hafa kynnt sér reglur áður en hún fór ofan í.

Á Instagram vitnar Brynja Dan Gunnarsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins, í lög um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna og al­mennt bann við mis­munun.

Ætla að fá lögfræðilegt álit

Dag­ný Péturs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Sky Lagoon, hafnaði því í sam­tali við DV.is um helgina að Sky Lagoon væri að mismuna fólki.

„Þetta er erfitt því það er mikil nekt. Við erum til dæmis með karla- og kvenna­klefa en við erum líka með klefa sem er mjög góður fyrir unisex og annað, sem við þurfum að gera. Ég var ekki að mis­muna konu sem vildi fara í karla­klefa eða karli sem vildi fara í kvenna­klefa,“ sagði Dagný. „Það er bara á­kveðið „protocol“ sem við verðum að fylgja og við tókum þessa á­kvörðun á sínum tíma. Þegar við segjum sund­föt þá töldum við að það væri ekki mis­munun en þetta er mjög á­huga­verður punktur og á­huga­verð um­ræða. Ég ætla bara að fá lög­fræði­legt álit í kjöl­farið á þessu, það er mjög fínt að fá þetta upp og ræða þetta. Við viljum að sjálf­sögðu að öllum líði vel, það er okkar mark­mið.“

Birta myndir af sér í mótmælaskyni

Ákörðun Sky Lagoon hafa vakið upp hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Nokkrar birta myndir af sér berar að ofan með mynd af karlmannsgeirvörtum yfir þeirra eigin í mót­mælendaskyni á Insta­gram undir myllu­merkinu #öll­meðnipplur og #freet­henipple.

Þá hefur málið vakið upp miklar umræður á Twitter.