Fyrirtæki sem sýna samfélagsábyrgð taka ábyrgð á þeim áhrifum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið, samfélagið og starfsfólk þess. Þannig stuðla fyrirtækin að betri heimi fyrir alla, en um leið getur það haft margvíslegan ávinning í för með sér fyrir fyrirtæki að sýna samfélagsábyrgð.

Nú til dags er fólk sem er að leita að atvinnu líka að skoða siðferði fyrirtækja og það að sýna samfélagsábyrgð getur dregið gott starfsfólk að fyrirtækjum og haldið þeim þar. Nielsen-könnun frá 2014 sem náði til yfir 30 þúsund þátttakenda í 60 löndum um allan heim komst að þeirri niðurstöðu að tveir af hverjum þremur vilja frekar vinna fyrir fyrirtæki sem sýnir samfélagsábyrgð. Aðrar kannanir hafa komist að þeirri niðurstöðu að fólk vinnur lengur hjá fyrirtækjum ef það finnur að það sé að vinna að einhverju markmiði. Þetta sama starfsfólk er líka miklu líklegra til að mæla með og auglýsa fyrirtækin sem þau starfa fyrir.

Samfélagsábyrgð ýtir líka undir vinsældir meðal neytenda og og eykur hollustu viðskiptavina. Samkvæmt áðurnefndri Nielsen-könnun er yfir helmingur fólks tilbúið til að borga aðeins meira fyrir vöru eða þjónustu frá fyrirtæki sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið. Fólk er líka mun líklegra til að stunda viðskipti við fyrirtæki sem láta gott af sér leiða. Þannig að samfélagsábyrgð hjálpar líka í markaðssetningu.

Fyrirtæki sem sýna samfélagsábyrgð geta líka laðað að sér fjárfesta og það að hafa sýnt samfélagsábyrgð getur skapað fyrirtæki velvild sem getur komið að miklu gagni ef ímynd þess bíður hnekki.

Samfélagsábyrgð minni fyrirtækja

Það eru ekki bara stórfyrirtæki sem ættu að huga að samfélagsábyrgð, minni fyrirtæki geta líka sýnt hana, þó það sé ekki á jafn stórtækan hátt. Þannig geta minni fyrirtæki aukið tengsl sín við samfélagið, sem getur verið þeim mjög mikilvægt.

Yfirleitt sýna minni fyrirtæki samfélagsábyrgð í nærumhverfi sínu. Það er vinsælt að styðja á einhvern hátt við menntun, umhverfismál, efnahagsþróun, ungmennastarf, góðgerðastarfsemi eftir hamfarir, menningu eða listir, svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er svo undir fyrirtækjum komið að ákveða á hvaða hátt þau vilja leggja sitt af mörkum.

Þegar búið er að velja málefni getur verið góð hugmynd að tileinka dag málefninu og jafnvel að láta starfsfólk sinna einhvers konar sjálfboðavinnu í tengslum við það, svo fólk geti kynnt sér málefnið vandlega og séð hvernig það getur hjálpað. Það eru svo ótal leiðir til að safna fé og leggja alls kyns málefnum lið og láta fyrirtækið þannig stuðla að betra samfélagi.