Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnissviði Samtaka atvinnulífsins, heldur utan um verkefnið hér á landi. „Hjá SA held ég meðal annars utan um verkefni tengd samfélagsábyrgð, þar á meðal Global Compact verkefnið en ég er einnig að vinna að verkefnum sem tengjast mennta- og jafnréttismálum, góðum stjórnarháttum og fleiru. Allt verkefni sem skipta miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélagið allt sem gerir starfið sérstaklega áhugavert og krefjandi.“

Verkefnin eru af ýmsum toga. „Auðvitað er það svo að starfsemi SA hverfist að miklum hluta um kjarasamninga og kjarasamningagerð en ýmiss konar greiningarvinna og önnur efnahagslega og samfélagslega mikilvæg mál eru líka fyrirferðarmikil í okkar starfi enda spilar þetta allt saman í stóra samhenginu. Atvinnulífið er ekki eyland í samfélaginu.“

Víðtækt og veigamikið verkefni

Ingibjörg segir Global Compact verkefnið bæði sögulegt og umfangsmikið. „Global Compact er stærsti vettvangur sinnar tegundar á heimsvísu. Vettvangurinn er merkilegur fyrir margra hluta sakir, meðal annars vegna þess að hann á uppruna sinn árið 1999 í samtali Sameinuðu þjóðanna við áhrifafólk á sviðum viðskipta og stjórnmála á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos. Þar lagði Kofi Annan til að þessir aðilar stæðu saman að því að leiða til þess að atvinnulífið tæki ákveðna forystu og ábyrgð varðandi það að leiða samfélagsþróun og viðskiptahætti í átt að bættum lífsgæðum fyrir alla,“ útskýrir hún.

„Um er að ræða varanlegan vettvang sem byggir á 10 stoðum eða markmiðum um ábyrga, mannvæna, afstöðu til umhverfis og samfélags. Global Compact talar vel við önnur verkefni sem taka á sömu viðfangsefnum. Þar er kannski fyrst að nefna Heimsmarkmiðin sem taka í raun á mörgu af því sama en eru skilgreind með öðrum hætti og eðli málsins samkvæmt eru þau tímasett með skýran endapunkt og mælikvarða. Global Compact verkefnið er vel til þess fallið að vinna með Heimsmarkmiðin enda styðja þau grunnhugmyndir vettvangsins.“

Mun hafa áhrif á árangur fyrirtækja

Ingibjörg segir að velgengni fyrirtækja muni á komandi árum að mörgu leyti ráðast af því hvernig þau nálgast þetta mikilvæga viðfangsefni. „Samfélagsábyrgð í verki er áskorun sem bíður atvinnulífsins um heim allan að takast á við. Margir eru komnir af stað og sinna málaflokknum afar vel. Aðrir eru að leita leiða og átta sig á því hvernig hægt er að nálgast verkefnið. Samfélagsábyrgð er ekki einkamál nokkurra fyrirtækja og er heldur ekki gæluverkefni eða einföld leið til markaðssetningar. Þetta er í raun efnahagsmál. Frammistaða og árangur fyrirtækja og jafnvel samfélaga mun í framtíðinni ráðast af því hvernig aðilar halda á þessum málum og grundvallar á margan hátt þróun samkeppnishæfni.“

Ingibjörg segir smæð Íslands fela í sér bæði kosti og galla. „Þróunin er hröð og margar leiðir bjóðast í þessum efnum. Það veldur okkur nokkrum áhyggjum hversu hátt flækjustigið er orðið og hversu erfitt getur orðið fyrir þá sem vilja taka markviss skref að finna út þær leiðir sem þjóna best viðkomandi aðila. Þarna erum við í nokkurri sérstöðu í íslensku atvinnulífi þar sem mjög hátt hlutfall fyrirtækja eru lítil eða meðalstór og það getur reynst þeim erfitt að ná yfir þá sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er til að koma málunum í formlegan farveg. Á móti kemur sérstaða okkar varðandi samfélagið sem við búum í. Mörg af markmiðum Global Compact og Heimsmarkmiðum eru til dæmis afar aðgengileg fyrir íslensk fyrirtæki vegna þess hve góð lífskjör og aðstæður við búum við.“

Mikilvægt að vinna saman

Viðtökurnar hafa verið góðar hér á landi. „Hér á landi eru 24 fyrirtæki sem eru aðilar að vettvanginum og við finnum fyrir miklum áhuga hjá mörgum í kringum okkur. Global Compact er afar hentugur vettvangur sem fyrsta skref hjá fyrirtækjum sem stefna á markvissar aðgerðir. Þröskuldurinn er lágur og litlar kvaðir og kostnaður. Í rauninni veitir vettvangurinn fullkomið aðhald á fyrstu skrefum þessarar mikilvægu vegferðar og það er svo fyrirtækjanna að finna hvaða leiðir þjóna best hagsmunum hvers fyrirtækis fyrir sig, allt veltur það á eðli starfseminnar, umfangi, mörkuðum og aðstæðum.“

Þátttaka Íslands í verkefni af þessari stærðargráðu geti haft í för með sér ótal kosti. „Global Compact er þekkt á alþjóðavísu og sem gefur verkefninu mikinn styrk, bæði vegna tengslanna sem hægt er að byggja upp í gegnum netið en líka vegna þeirrar alþjóðlegu viðurkenningar sem aðild felur í sér. Slíkt er mikils virði fyrir land sem treystir á útflutning í eins miklum mæli og við gerum.“

Þá er nóg fram undan. „Nú er í undirbúningi að stofna formlegt net eða vettvang íslensku fyrirtækjanna sem eru aðilar að Global Compact. Með því neti viljum við styrkja frekara samtal fyrirtækja hér heima sem eru að vinna að verkefnum á sviði samfélagsábyrgðar. Eins mun slíkur vettvangur eiga í góðu samtali við önnur samtök og hagsmunaaðila sem vinna að slíkum málefnum,“ segir Ingibjörg.

„Það er mikilvægt að allir sem að þessum verkefnum koma leggist saman á árarnar varðandi það að einfalda og skýra eins og kostur er þennan frumskóg sem markmið, staðlar, regluverk, vottanir og kerfi samfélagsábyrgðar eru í dag. Það verður ekki hjá því komist að fyrirtæki taki afstöðu til þess hvernig þau vilja vinna að verkefnum á sviði samfélagsábyrgðar á næstu misserum og SA mun með stuðningi við Global Compact og eftir öðrum leiðum styðja fyrirtæki á þeirri vegferð eins og kostur er.“