Olivia Newton-John kvaddi þennan heim á mánu­daginn og þó að á langri og til­komu­mikilli af­reka­skrá hennar séu meðal annars tæp­lega 40 lög á Bill­board Hot 100 vin­sælda­listanum mun Grea­se senni­lega fyrst og fremst halda minningu söng- og leik­konunnar á lofti um ó­komna tíð. Enda hefur Sandy Ol­son, jafn­vel bara þekktari sem Sandy baby, fylgt Newton-John eins og skugginn frá því þau John Tra­volta tjúttuðu og trylltu lýðinn fyrst í kvik­mynda­söng­leiknum 1978.

Selma stældi Oliviu og söng Hopelessly devoted to you á barnsaldri en löngu síðar rættist æskudraumurinn þegar hún fetaði í spor Newton-John á sviði í hlutverki Sandyar.
Fréttablaðið/Samsett

„Hún er fyrsta söng­konan sem ég man eftir að hafa fallið fyrir,“ segir Selma Björns­dóttir, stall­systir Oli­viu í leik og söng, en hún átti síðar eftir að feta í dans­spor Newton-John þegar hún lék Sandy, mjúka töffarann með harða kjarnann, í Grea­se í Borgar­leik­húsinu 1998.

Sungið í ljósa­peru

„Ég var bara fjögurra ára gömul þegar myndin kom út. Ég var vön að setja nátt­kjól á hausinn á mér, svo ég væri með í þykjustunni sítt hár sem lafði niður á bak, svo stóð ég með ljósa­peru fyrir framan spegil og söng Hopeless­ly de­vot­ed to you,“ heldur Selma á­fram hlæjandi.

„Síðan rættist ein­fald­lega barn­æsku­draumur öllum þessum árum síðar þegar ég fékk að leika hana, þannig að hún hefur alltaf átt stóran sess í hjarta mínu og líka þegar hún gerði Xana­du og allt þetta. Hún var með magnaða rödd og er ó­trú­lega flott söng­kona.“

Olivia lék músuna Kiru í Xana­du sem kom í kjöl­far Grea­se 1980 og festi söng­konuna enn frekar í sessi meðal allra skærustu stjarna komandi ára­tuga þannig að ekki má van­meta á­hrifa­mátt þeirrar annars heldur hall­æris­legu kvik­myndar en með sam­eigin­legu á­taki fóru hljóm­sveitin ELO og Newton-John nokkuð létt með að gera myndina sí­gilda.

Aðdáendur Newton-John lögðu blóm við stjörnu leik- og söngkonunnar á hinni víðfrægu götu Hollywood Walk of Fame eftir að fréttir bárust um andlát hennar.
Fréttablaðið/Getty

Enn að syngja Grea­se-lögin

Þá verður ekki af þessum tveimur myndum sem komu út með tveggja ára milli­bili tekið að þær eru upp­spretta margra vin­sælustu og þekktustu laga söng­konunnar: Hopeless­ly De­vot­ed to You,You're the One That I Want, Sum­mer Nights, Magic og að sjálf­sögðu Xana­du.

„Síðan er eitt­hvað við þetta lag, því að þegar dóttir mín var tveggja ára og hafði ekki hug­mynd um að ég hefði leikið Sandy í Grea­se, bara elskaði myndina, þá var hún alltaf að syngja há­stöfum „Hom­basíni rót­eit jú“ sem var „Hopeless­ly De­vot­ed to you“. Þannig að hún var ekki einu sinni farin að tala al­menni­lega en söng þetta af öllu hjarta.“

Selma segir aug­ljóst að Olivia hafi náð til fólks sama af hvaða kyn­slóð það er. „Þessi mynd er náttúru­lega al­gjör­lega svo fyrir alla og ég er enn þá að syngja þessi lög, eins og „You're the One that I want“. Ég tók það um verslunar­manna­helgina og það stakk í hjartað að fá þessar fréttir af æsku­fyrir­myndinni.“

Verð­laun og viður­kenningar

Olivia Newton-John fæddist í Cam­brid­ge á Eng­landi 26. septem­ber 1948 og var því 73 ára þegar hún lést. Að­dá­endur hennar, sam­starfs­fólk og vinir hafa víða minnst hennar með hlý­hug síðan á mánu­daginn, ekki síst á sam­fé­lags­miðlum þar sem hún er mærð einum rómi fyrir mikla mann­kosti og hjarta­hlýju.

Hún var fimm ára þegar fjöl­skylda hennar flutti til Ástralíu þar sem hún ólst upp og bjó þangað til henni var ráð­lagt að freista gæfunnar í Banda­ríkjunum 1975 og hún lagði í far­sældar­ferð sem nú er lokið eftir að hún laut í lægra haldi fyrir brjósta­krabba­meininu sem hún greindist fyrst með 1992.

Hún lagði sitt af mörkum til krabba­meins­rann­sókna, stofnaði meðal annars The Olivia Newton-John Cancer Well­ness and Research Centre í Mel­bour­ne í Ástralíu. Þá lét hún mjög að sér kveða í um­hverfis­vernd og ýmsum mann­úðar­málum og hlaut ekki síður viður­kenningar fyrir þau störf sín en af­rekin í skemmtana­bransanum en fyrir það síðar­nefnda að­laði Elísa­bet Eng­lands­drottning hana og veitti OBE-orðuna.

Olivia Newton-John og John Travolta gerðu garðinn frægan sem dínamíska dúóið Sandy Olsson og Danny Zuko í ódauðlega kvikmyndasöngleiknum Grease sem kom út árið 1978.
Mynd/Getty

Newton-John er fjór­faldur Gram­my-verð­launa­hafi sem náði fyrst inn á Bill­board 100 með laginu If Not for You árið 1971 og komst síðast þar inn 2010 þegar hennar vin­sælasta lag, Physi­cal, komst aftur á blað, í 89. sæti, eftir að það var sungið í sjón­varps­þáttunum Glee.

Síðan er vert að minnast þess að Newton-John söng fyrir Bret­land í Euro­vision 1974 og náði 4. sæti með laginu Long Live Love sem átti vita­skuld ekki séns í ABBA og Wa­terloo.­