Fróði segist alla tíð hafa haft áhuga á hegðun og atferli almennt og því hafi hann lagt stund á sálfræði áður en hann fór út til Edinborgar í meistaranám.

„Það var í raun ekki fyrr en ég var hálfnaður með grunnnámið að ég áttaði mig á því að ég gæti sameinað það áhugamál og áhugann á dýrum með meistaranámi í dýraatferlisfræði. Ég vissi ekki fyrir þann tíma að það væri afmörkuð fræðigrein,“ segir Fróði og bætir við að hann hafi alltaf horft mikið á dýralífsþætti og lesið bækur um dýr frá unga aldri.

Fróði segir dýraatferlisfræði aðallega vera kennda á Bretlandi en námsframboðið er þó að aukast í Bandaríkjunum og annars staðar í Evrópu eins og til dæmis í Hollandi og í Sviss.

„Ég sótti um í nokkrum skólum en ákvað að lokum að fara til Skotlands í St. Andrews-háskólann. Ég var mjög ánægður með námið þar. Kennararnir voru sérfræðingar á ýmsum sviðum og ég gat tekið fjölbreytta áfanga. Við fórum líka í vettvangsferð til Portúgal og gerðum rannsóknir þar, sem var áhugavert,“ segir Fróði.

„Dýraatferlisfræði er stórt og vítt fræðasvið því hún snýr að öllu atferli ólíkra dýrategunda. Viðfangsefnin eru allt frá fæðuöflun til félagslegra samskipta og kynhegðunar. Ég sat til dæmis áfanga um samspil rándýra og bráðar og aðra áfanga um hugræna hæfni dýra, félagshæfni og menningu innan dýrasamfélaga.“

Lokaverkefni um simpansa

Lokaverkefni Fróða í náminu var rannsókn á simpönsum sem búa í Edinborgardýragarði.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á félagshegðun og líka á hugrænni getu og hvernig hún þróast í samanburði við manninn. Meistaraverkefnið mitt fjallaði um hugræna getu hjá simpönsum og hvernig þeir hegða sér í sambandi við viss áhöld,“ segir Fróði.

„Upphaflega átti ég að gera rannsóknina úti, en leiðbeinandinn minn stýrir rannsóknastöð í Edinborgardýragarði sem er bara í klukkustundar fjarlægð frá St. Andrews. Það eru fimmtán simpansar sem taka sjálfviljugir þátt í rannsóknum fyrir umbun. Ég átti að framkvæma rannsókn þar í maí en út af COVID varð ég að fara heim í mars og vann þess vegna með myndbandsgögn sem leiðbeinandinn sendi mér,“ útskýrir Fróði.

Fróði segir að í rannsókninni á simpönsunum fari fram viss samanburður við hegðun mannsins.

„Þannig að þetta kemur aðeins inn á mannfræði. Mér finnst áhugavert að bera stóru apana, okkar nánustu ættingja, saman við manninn, en það er kannski ekki hentugt ef maður ætlar að búa á Íslandi, en ég hef líka áhuga á að skoða atferli hvala og sela og líka spendýra eins og refa og hreindýra. Ég gæti hugsað mér að fara út í eitthvað svoleiðis,“ segir Fróði og bætir við að næst á dagskrá hjá honum sé að finna sér skemmtilega rannsóknarvinnu en hann útilokar ekki möguleikann á doktorsnámi einhvern tímann seinna.

Ýmsir möguleikar eftir nám

„Ég væri alveg til í að fá vinnu hjá einhverjum af þessum stóru stofnunum hérlendis sem rannsaka atferli dýra, til dæmis hjá Hafró eða Náttúrufræðistofnun Íslands. Það eru stundaðar alls kyns rannsóknir á dýrum hér á landi, líka hjá minni stofnunum, eins og selir eru til dæmis rannsakaðir hjá Selasetrinu á Hvammstanga, svo eru líka stundaðar fiskirannsóknir hér sem verða áhugaverðar í framtíðinni vegna hlýnunar sjávar.

Svo ef ég finn eitthvað spennandi sem ég vil rannsaka betur þá er alveg opið að skoða það seinna. Dýraatferlisfræði nær yfir svo breitt svið og er góður grunnur fyrir sértækar rannsóknir.“