Þrándur Þórarinsson hefur verið áberandi í íslensku myndlistarlífi undanfarin misseri og í raun er óhætt að tala um stjörnu í því sambandi enda njóta verk hans mikilla vinsælda.

Hann hefur helgað sig myndlistinni síðustu tíu ár en það nægir ekki til þess að fleyta honum inn í Samband íslenskra myndlistarmanna sem synjaði aðildarumsókn hans í gær.

„Ég sótti um aðild að SÍM, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, skömmu fyrir jól en var tilkynnt í gær að ég uppfylli ekki skilyrði sambandsins,“ segir Þrándur í samtali við Fréttablaðið og bætir við að hann haldi þó ró sinni og finnist varla orð á þessu gerandi.

Sjá einnig: Þrándur gerir „Klausturfokkið“ ódauðlegt á striga

„Leiðin inn í sambandið er öllum sem hafa lokið þriggja ára BA-námi í myndlist greið en það á ekki við mig þar sem ég droppaði út úr LHÍ á sínum tíma og gerðist þess í stað lærlingur Odds Nerdrum,“ heldur Þrándur áfram.

„Meistarinn minn er ekki opinber stofnun, eins og gefur að skilja, öngva hlaut ég diplómuna hjá honum. Hvað þá BA-próf,“ segir Þrándur og bætir við að þar fyrir utan teljist honum heldur ekki til tekna hjá SÍM að hafa alfarið helgað sig myndlistinni síðasta áratuginn.

Öll sund lokuð

Þrándur nefnir nokkur önnur skilyrði fyrir aðild að SÍM en segist ekki uppfylla neitt þeirra. „Sambandið er einnig opið þeim sem uppfylla tiltekin skilyrði eins og að hafa fengið listamannalaun, opinbera styrki, haldið einkasýningar á opinberum sýningarstöðum eða hafa selt opinberum söfnum verk sín. Þar sem ekkert af þessu hefur komið til framkvæmda í mínu tilviki telst ég einfaldlega ekki gjaldgengur.“

Sjá einnig: Þórarinn í IKEA féll fyrir málverki af logandi geit

Þrándur segir að í fljótu bragði sýnist honum þetta vera „svona tölvan segir nei“ dæmi. „Þeim er víst ekkert lítið annt um reglurnar sínar þarna í sambandinu en ég vildi bara vera myndlistarmaður með myndlistarmönnum. En ég verð víst fyrst að klára skólann,“ segir myndlistarmaðurinn útlægi háðskur.