Love Island parið Gemma Owen og Luca Bish voru ósátt við hvort annað og löbbuðu heim til sín á hótel í London í gær í sitthvoru lagi að loknum tökum á endurfundaþætti áttundu og nýjustu seríunni af Love Island sem nú er senn á enda.
Breska götublaðið Mirror fullyrðir fullum fetum að andað hafi köldu á milli parsins og virðist vera sem endurfundaþátturinn hafi tekið á parið. Götublaðið lætur þess einnig getið að Luca hafi rætt við ljósmyndara og viðurkennt að þau hafi átt í erjum.

Endurfundaþáttarins er beðið með mikilli eftirvæntingu en Mirror segir að þátturinn hafi verið átakaþáttur. Framleiðendur hafi meðal annars neyðst til þess að stíga inn í erjur á milli tveggja keppenda.
Þau Luca og Gemma voru í góðu stuði á leið til stúdíósins að því er má sjá á Instagram síðu Gemmu. Þar sitja þau saman í bíl á leið til stúdíósins og hrósar Luca henni í hástert.
Allt í erjum á setti
Mirror segir að endurfundaþátturinn sem sýndur verður í bresku sjónvarpi um helgina hafi verið óreiðukenndur og fullur af erjum, eins og því er lýst af blaðinu.
Þá hafi Casa Amor keppendurnir Coco Lodge og Summer Botwe sérstaklega rifist. Hefur blaðið eftir gesti af Twitter að Coco hafi að endingu gengið út vegna bræði.
Enga trú á Gemmu og Luca
Aðdáendur Love Island virðast fullvissir um að þau Luca og Gemma muni ekki endast lengi saman. Tekur Mirror saman tíst þar sem aðdáendur lýsa yfir áhyggjum af líkamsstöðu Gemmu í endurfundaþættinum.
„Hún virðist vera búin að fá nóg,“ skrifar einn um parið sem komst alla leið í úrslit þáttanna og lenti í öðru sæti.
„Af hverju lítur Gemma út fyrir að vera gísl?“ spyr einn á meðan sá þriðji segist ekki geta beðið eftir því að Gemma hætti með Luca. „Svona litu Díana og Karl út áður en þau skildu,“ skrifar sá fjórði.
