Edda Þórarinsdóttir er alin upp í Vesturbænum í Reykjavík og stundar nám í læknisfræði í Slóvakíu. Hún stofnaði Instagram-reikninginn Íslenskir læknanemar til að kynna nám læknanema og störf lækna, bæði hér heima og erlendis. Síðan er fyrir alla sem hafa áhuga á læknanámi, læknanema og þá sem hafa áhuga á lífi og störfum lækna.

„Ég fór út í læknisfræðinám fyrir tveimur árum, en þar áður tók ég eitt ár af hjúkrunarnámi á Íslandi. Ég hef svo unnið á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans meðfram náminu,“ segir Edda. „Ég er að fara að hefja þriðja árið í náminu, en alls eru þetta sex ár og svo tekur sérfræðinám við. Það er mismunandi eftir sérhæfingu hvað sá hluti námsins tekur langan tíma, en læknanám tekur yfirleitt 10-14 ár. Nemar í Slóvakíu og Ungverjalandi eru fullgildir læknar þar eftir sex ár, en hér heima þarf fólk að taka kandídatsár og það er mælt með því að við gerum það sama.

Ég fann það þegar ég var yngri að ég hafði mikinn áhuga á mannslíkamanum og hvernig hann virkar og langaði að hjálpa fólki og finna einfaldari lausnir til þess,“ segir Edda. „Ég tengdi líka alltaf mikið við hvernig læknar starfa og langaði annaðhvort að vera læknir eða ljósmóðir, en fann mig ekki í hjúkruninni.“

Í krúttlegum læknabæ

„Það kom mér á óvart hvað það er gaman að búa í Slóvakíu. Landið er fátækt miðað við Ísland, húsin eru fátækleg og það er margt þarna sem er ekki eins og heima, en það er líka margt sem er betra,“ segir Edda. „Það kemur til dæmis á óvart hvað heilbrigðiskerfið virkar hratt og almennt gerist allt hraðar en heima. Það er líka ódýrara að lifa þarna, sem er er gott fyrir okkur nemana.

Ég bý í litlum bæ sem heitir Martin, sem er krúttlegur og sætur læknabær í 30 mínútna fjarlægð frá þriðju stærstu borg Slóvakíu, sem heitir Zilina. Mér líður vel þarna,“ segir Edda. „Það eru rosalega margir Íslendingar þar, við erum 160 núna og það eru alltaf fleiri og fleiri að koma út, því það er erfitt að komast inn í læknanámið heima. Norðmennirnir eru síðan enn fleiri, en hér er fólk frá alls konar löndum.“

Faraldurinn svipaður og hér

„Ég kom heim til Íslands í mars þegar skólanum var lokað vegna heimsfaraldursins og fjarnám tók við. Ég vildi bara fara heim í öryggið,“ segir Edda. „Faraldurinn hefur ekki farið mjög illa með Slóvakíu, en þetta hefur líka verið tæklað mjög vel. Landamærunum var lokað í mars, svo það lentu sumir í veseni með að komast heim, og verslanir og apótek voru bara opin á ákveðnum tíma. Það er skylda að vera með grímu úti og fólk var í raun sent í smá heimasóttkví og var ekkert á flakki. Fyrir vikið hefur aðeins 31 látist, en í Slóvakíu búa rúmlega fimm milljón manns. Í raun hefur þetta bara verið nokkurn veginn í takt við faraldurinn á Íslandi.

Edda býr í litlum bæ í Slóvakíu sem heitir Martin og líður vel þar. Í þessum krúttlega læknabæ búa 160 íslenskir læknanemar og sífellt bætast fleiri við, því það er erfitt að komast inn í læknanám hér á landi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Það er misjafnt hvað faraldurinn hefur haft mikil áhrif á námið hjá fólki, það fer eftir því á hvaða ári það var. En fjarnámskennsla hófst um viku eftir að skólanum var lokað og flestir fyrirlestrar hafa verið rafrænir. Þannig að fólk vann sjálfstætt og það var alltaf hægt að ná í kennarana í gegnum tölvupóst. Lokaprófin voru svo öðruvísi, venjulega eru þau munnleg, en nú voru þrjú af fjórum prófum skrifleg.“

Hjálpar fólki að velja nám og sérhæfingu

Edda stofnaði Instagram-síðuna Íslenskir læknanemar fyrir um einu og hálfu ári, þegar hún var hálfnuð með fyrsta árið. „Mér fannst vanta vettvang þar sem fólk gæti kynnst læknanámi betur. Maður heyrir oft af fólki sem veit ekki hvað það vill gera eða hvaða sérhæfingu það vill mennta sig í,“ segir hún. „Sumir eru svolítið týndir og hafa ekki fengið svör við öllum spurningum sínum þannig að ég vildi búa til stað þar sem fólk gæti fengið betri innsýn í námið. Við birtum upplýsingar um læknanám á mörgum stöðum í heiminum. Við erum með íslenska læknanema sem eru að læra í Danmörku, Kýpur, Slóvakíu, Ungverjalandi, Póllandi, Bandaríkjunum og Íslandi og svo er nemi í Tékklandi sem ég er að reyna að fá inn líka.

Síðan var einnig gerð til að leyfa fólki að kynnast náminu í öðrum löndum og sýna þeim sem eru heima að það er í góðu lagi að fara út í nám,“ segir Edda. „Ég vil hvetja fólk til að fara bara út, taka sénsinn og prófa nám þar, það er ekki heimsendir að komast ekki inn í námið hér.

Svo er þetta líka skemmtilegt og skapar gott tengslanet,“ segir Edda. „Þetta er góður miðpunktur fyrir okkur sem erum í læknisfræði og fyrir þá sem hafa áhuga á því. Við viljum koma fólki á sama stað, því við erum öll í sama liði og verðum kollegar í framtíðinni.“

Síðan er nú komin með yfir þrjú þúsund fylgjendur. „Það hefur gengið ótrúlega vel og það er gaman að sjá hversu margir hafa áhuga á að fylgjast með. Ég hef líka hitt marga sem tala um síðuna án þess að vita að ég opnaði hana og það er gaman,“ segir Edda. „Það er líka alls konar fólk sem fylgist með, því fólk hugsar með sér að læknar séu einmitt það fólk sem það leitar til ef því líður illa, þannig að það er gaman að sjá hvernig þau starfa.“

Innsýn í störf sérfræðinga

„Það kemur alltaf nýr grammari inn í hverri viku í einn til tvo daga í senn og segir frá sér og sínu. Til að byrja með voru þetta nemar, en svo hafa sérfræðingar komið með í þetta og það hefur verið æðislegt að fá innsýn í störf þeirra,“ segir Edda. „Við heyrum bæði frá þeim sem eru í sérfræðinámi og útskrifuðum sérfræðingum sem sýna hvernig vinnurútínan þeirra er, hvernig sjúklingum þau sinna, hvað er það besta og versta við starfið og fleira. Ég veit að það hefur hjálpað mörgum að velja sérhæfingu og komast í samband við sérfræðinga sem geta hjálpað þeim.

Í síðustu viku kom Dóra Lúðvíksdóttir lungnasérfræðingur og þar áður kom hann Elfar Úlfarsson heilaskurðlæknir og kynntu þau sitt starf innan Landspítalans. Í þessari viku kemur svo Una Emilsdóttir, sem hefur verið að rannsaka hvernig vörur hafa áhrif á húð og líf fólks, sem er svolítið öðruvísi vinkill og það er gaman að því. Svo koma fleiri í kjölfarið, bæði nemar og sérfræðingar. Það er spennandi vetur fram undan og það eru margir sérhæfðir læknar sem hafa áhuga á að koma,“ segir Edda. „Ég má samt til með að þakka henni Bryndísi Sigurðardóttur smitsjúkdómalækni. Hún var fyrsti sérfræðingurinn sem kom og var alveg hreint yndisleg, en þá voru ekki komnir margir fylgjendur. En hún kom þessu í gang og svo hefur ekki verið aftur snúið eftir það.“