Breski Eurovision farinn Sam Ryder hefur svipt hulunni af því hver annar tveggja keppanda Noregs í keppninni er í raun og veru. Breska götublaðið Daily Mail greinir frá en kappinn ræddi málin í breska útvarpsþættinum Magic Radio Breakfast Show.
Keppendur Noregs í Subwoolfer, gulu úlfarnir, vöktu mikla athygli fyrir lag sitt um banana og úlfa og takta í keppninni. Þeir sögðu aldrei neitt upphátt og héldu raunverulegum nöfnum sínum leyndum.
Orðrómar voru uppi um að þarna væri á ferðinni strákabandsstjarnan Ben Adams sem eitt sinn var hluti af strákabandinu A1 en þeir kviknuðu eftir að glöggir aðdáendur veittu því athygli að Porsche bíll stjörnunnar var fyrir utan H3 Arena tónleikahöllina í Bærum í Noregi á sama tíma og Subwoolfer voru þar við tökur á tónlistarmyndbandi atriðsins.
Sam staðfestir að hann sé annar tveggja hinna dularfullu úlfa. „Þetta var hann. Hann er goðsögn, Ben,“ segir Sam sem segist hafa áttað sig á því hvað var um að vera við morgunverðarhlaðborðið í Eurovision.
„Ég sá Ben fá sér krossant og ég var bara „Bíddu nú við, hvað ert þú að gera hér?“ segir Sam sem segist hafa ákveðið að láta Ben í friði.

Elskaði allt við Eurovision
Eins og alþjóð veit fór Úkraína með sigur af hólmi á laugardag. Bretar lentu í öðru sæti og segist Sam vera í skýjunum með árangrinn, enda í fyrsta sinn sem Bretar enda svo ofarlega í meira en tuttugu ár.
„Þetta var fullkomið kvöld. Mér leið ekki eins og við hefðum tapað. Við fengum að standa þarna og styðja Úkraínu og fyrir mér er þetta allt sem Eurovision snýst um,“ segir Sam.
„Það er þessi samheldni. Ég hefði ekki viljað skipta á þessu ári fyrir neitt annað ár, þetta var ótrúleg upplifun.“