Breski Euro­vision farinn Sam Ryder hefur svipt hulunni af því hver annar tveggja keppanda Noregs í keppninni er í raun og veru. Breska götu­blaðið Daily Mail greinir frá en kappinn ræddi málin í breska út­varps­þættinum Magic Radio Break­fast Show.

Kepp­endur Noregs í Subwool­fer, gulu úlfarnir, vöktu mikla at­hygli fyrir lag sitt um banana og úlfa og takta í keppninni. Þeir sögðu aldrei neitt upp­hátt og héldu raun­veru­legum nöfnum sínum leyndum.

Orð­rómar voru uppi um að þarna væri á ferðinni stráka­bands­stjarnan Ben Adams sem eitt sinn var hluti af stráka­bandinu A1 en þeir kviknuðu eftir að glöggir að­dá­endur veittu því at­hygli að Porsche bíll stjörnunnar var fyrir utan H3 Arena tón­leika­höllina í Bærum í Noregi á sama tíma og Subwool­fer voru þar við tökur á tón­listar­mynd­bandi at­riðsins.

Sam stað­festir að hann sé annar tveggja hinna dular­fullu úlfa. „Þetta var hann. Hann er goð­sögn, Ben,“ segir Sam sem segist hafa áttað sig á því hvað var um að vera við morgun­verðar­hlað­borðið í Euro­vision.

„Ég sá Ben fá sér krossant og ég var bara „Bíddu nú við, hvað ert þú að gera hér?“ segir Sam sem segist hafa á­kveðið að láta Ben í friði.

Strákabandsstjarnan Ben Adams var annar úlfanna, samkvæmt Sam Ryder.
Fréttablaðið/Getty

Elskaði allt við Euro­vision

Eins og al­þjóð veit fór Úkraína með sigur af hólmi á laugar­dag. Bretar lentu í öðru sæti og segist Sam vera í skýjunum með árangrinn, enda í fyrsta sinn sem Bretar enda svo ofar­lega í meira en tuttugu ár.

„Þetta var full­komið kvöld. Mér leið ekki eins og við hefðum tapað. Við fengum að standa þarna og styðja Úkraínu og fyrir mér er þetta allt sem Euro­vision snýst um,“ segir Sam.

„Það er þessi sam­heldni. Ég hefði ekki viljað skipta á þessu ári fyrir neitt annað ár, þetta var ó­trú­leg upp­lifun.“