Írski met­sölu­höfundurinn Sally Roon­ey vill ekki láta þýða nýjustu skáld­sögu sína yfir á hebresku vegna þess að hún styður við­skipta­bann á Ísrael.

Þriðja skáld­saga Roon­ey, Beautiful World, Where Are You, kom út í septem­ber og hefur setið á met­sölu­listum í Bret­landi, Banda­ríkjunum og Ír­landi. Modan, ísraelski út­gefandi Roon­ey, falaðist eftir því að þýða bókina en að sögn ísraelska fjöl­miðilsins Haaretz hafnaði Roon­ey beiðninni vegna pólitískra skoðana sinna.

Roon­ey, sem er þrí­tug, hefur ekki farið í graf­götur með skoðanir sínar á Ísrael. Í júlí, á meðan stríðs­á­stand ríkti á milli Ísraels og Hamas á Gasa, var hún ein þúsunda lista­manna sem skrifuðu undir bréf sem for­dæmdi Ísraels­menn og á­sakaði þá um að­skilnaðar­stefnu.

Á­kvörðun Roon­ey hefur vakið upp hörð við­brögð og hafa ýmsir gagn­rýnt rit­höfundinn á sam­fé­lags­miðlum og jafn­vel á­sakað hana um and­semítískar skoðanir. Þá hafa sumir á­sakað hana um tví­skinnung fyrir að leyfa út­gáfu bóka sinna í Kína vegna mann­réttinda­brota Kín­verja á Úígúrum.

Að sögn Haaretz stað­festi um­boðs­maður Roon­ey, Tra­cy Bohan, að hún hefði hafnað beiðni um þýðingu yfir á hebresku þegar fjöl­miðilinn leitaði eftir við­brögðum frá höfundinum.

Tvær fyrri skáld­sögur Roon­ey, Con­ver­sations With Fri­ends og Normal Peop­le, voru áður gefnar út á hebresku af Modan.

Niðurdrepandi og óþægilegt

Ísraelski fræði­maðurinn Gitit Levy-Paz gagn­rýndi á­kvörðun Roon­ey í skoðana­grein á vef­miðlinum Forward.

„Á­kvörðun Roon­ey kemur mér bæði á ó­vart og hryggir mig. Ég er Gyðingur og ísraelsk kona en ég er líka bók­mennta­fræðingur sem trúir á alls­herjar kraft listarinnar,“ skrifar hún.

Þá skrifaði breski rit­höfundurinn og blaða­maðurinn Ben Judah á Twitter:

„Niður­drepandi og ó­þægi­legt að Sally Roon­ey vilji ekki leyfa þýðingu nýjustu skáld­sögu sinnar yfir á hebresku.“

Banda­ríski rit­höfundurinn og gagn­rýnandinn Ruth Franklin sakaði Roon­ey um and­semít­isma og spurði af hverju hún leyfði þýðingu verka sinna yfir á kín­versku og rúss­nesku:

„Er henni sama um Úígúra? Eða blaða­menn sem gagn­rýna Pútín? Að dæma Ísrael út frá öðrum við­miðum en restina af heiminum er and­semít­ismi.“