Ólöf Nordal sýnir nýja skúlptúra á sýningunni Fygli í Ásmundarsal. Ólöf hefur lengi unnið með fugla í verkum sínum og sækir gjarnan innblástur í íslenska þjóðtrú og samtímamenningu. Fygli Ólafar eru skúlptúrar steyptir í brons sem sýna fígúrur einhvers staðar mitt á milli manna og fugla.
„Ég er að leika mér með tæknina, efni og aðferð. Mig langaði til þess að gera verk sem væru unnin milliliðalaust í ákveðið efni. Ég veit ekki af hverju mig langaði til þess en það er kannski eitthvað í tíðarandanum sem kallaði á það. Þetta eru verk sem eru búin til fyrst í leir, frekar lítil, og síðan blásin upp. Þau eru þrívíddarskönnuð og síðan þrívíddarprentuð og steypt í bronssteypu,“ segir Ólöf.

Þekkt minni úr trúarbrögðum
Ólöf segir verkin vera algjörlega skálduð en þau sæki þó í þekkt mótíf úr þjóðsögum, þjóðtrú og trúarbrögðum. „Það er þekkt minni í öllum trúarbrögðum að sálin umbreytist í fugl og fljúgi upp til himna.“
Þá segir hún Fyglin vera systurverk nýlegs verks hennar sem ber heitið Mannfuglar og er staðsett í garði hjúkrunarheimilisins Móbergs á Selfossi.
„Í Mannfuglum var ég svolítið að hugsa um þetta með líkamann og hvernig hann umbreytist í gegnum tíðina, frá fæðingu til dauða. Inni á hjúkrunarheimili þá er einhvern veginn verið að vinna með ummyndunina, fólk missir færni, öðlast aftur færni, svo á endanum missir það hana alveg. Það þekkist í flestum trúarbrögðum og er mjög lifandi í nútímanum að fólki finnst að andinn eða sálin umbreytist í fugl á dánarstund og fljúgi burt í formi fugls. Það er mjög sterkt minni og margar sögur, líka samtímasögur, um að fuglar vitji hins deyjandi og fljúgi burt með sálina. Eftirlifendur tengja svo oft látinn ástvin við ákveðinn fugl,“ segir hún.
Það er þekkt minni í öllum trúarbrögðum að sálin umbreytist í fugl og fljúgi upp til himna.
Farfuglar og mannfólk
Hefurðu mikinn áhuga á fuglum?
„Þegar ég byrjaði að hugsa um fugla þá var það hrafninn og það var beint upp úr þjóðtrúnni. Á Íslandi þá er náttúrlega svo lítið af dýrum, það er refurinn og svo bara fuglar, í raun og veru. Það eru fuglar í þjóðtrúnni okkar, við hlustum á fugla og það er til fólk sem talar fuglamál.“
Ólöf kveðst þó ekki fylgjast sérstaklega með fuglum eða stunda fuglaskoðun. Þá bætir hún því við að innsetningin Fygli sæki einnig innblástur til farfugla.
„Við erum alltaf að gleðjast yfir farfuglunum sem koma fljúgandi yfir hafið, þeir koma með vorið, vonina, með háreysti og fuglasöng, hamingju og gleði. Svo hverfa þeir aftur í sumarlok, eru bara hérna örstutt, en við teljum þá samt vera hluta af okkur heimi og vera „íslenska fugla“. Ég var svolítið að hugsa um það þegar ég tók verkin úr þessu spítalasamhengi þá fá fyglin opnari túlkunarmöguleika. Ég fór að sjá farfuglana í samhengi við allt mannfólkið sem flýgur hingað og sækist eftir því að fá að verða hluti af okkar lífi en okkur finnst vera mjög framandi,“ segir Ólöf og vísar þar til flóttamanna og hælisleitenda. „Orðið flótti og að fljúga er af sama meiði.“

Hljóðverk eftir son Ólafar
Á einum vegg sýningarrýmisins í Ásmundarsal stendur vísa sem Ólöf samdi: „Tístir rugl og rogl, á rumpi situr fogl, fílíófó, fílíófogg, fyglið Gylligogg.“
„Þessi vísa er náttúrlega bull, svona þjóðvísurugl. Ég hef gaman af því að leika með tungumálið líka,“ segir Ólöf kímin.
Hvert og eitt fygli Ólafar er með sína eigin hljóðmynd sem heyra má óma um salarkynni Ásmundarsalar. Hljóðverkið er unnið af syni Ólafar, Hjalta Nordal tónskáldi.
„Mér fannst það gaman því þeir eru þarna að tísta rugl og rogl, á annarlegu tungumáli sem við skiljum takmarkað, og svona aðeins fyrir ofan okkur. Mér fannst tilbúið foglamál vera eitthvað sem gæti lyft skúlptúrunum upp og náð húmornum inn, því mér finnst myndirnar fyndnar og ég vildi ýta aðeins undir það og taka þetta ekki allt of alvarlega. Þetta er hljóðmynd sem ég vann með Hjalta syni mínum þar sem hann spilar þetta ruglmál á saxófón. Ég valdi saxófóninn vegna þess að í honum er bæði kvak og tíst, og það er oft talað um að saxófónninn sé það hljóðfæri sem líkist mannsröddinni hvað mest,“ segir Ólöf.