„Starf mitt felst í að veita sálfræðilegan stuðning þegar líkamleg veikindi koma upp. Boðið er upp á bæði viðtöl fyrir inniliggjandi sjúklinga á hjartadeild, og eftir útskrift á göngudeild. Viðtöl eftir útskrift eru mun algengari þar sem innlögn vegna hjartaveikinda er í mörgum tilvikum frekar stutt. Eftir hjartaþræðingu er fólk oft útskrifað heim samdægurs eða daginn eftir. Hins vegar getur fólk verið lengi að vinna úr þeirri lífsreynslu að standa frammi fyrir lífsógnandi veikindum. Það getur því tekið fólk tíma að ná utan um hvað gerðist og átta sig á eigin líðan. Í vissum tilvikum breytist staða fólks svo snöggt, einkum ef það hafði ekki greiningu á hjartasjúkdómi fyrr en eftir bráðaveikindi.
Við útskrift heim tekur svo við aðlögun að breyttum aðstæðum, langvarandi lyfjameðferð, aukaverkanir lyfja, endurhæfing, lífsstílsbreytingar, fjarvera frá vinnu og þrekleysi. Í sumum tilvikum finnst fólki það þurfa svolítið að læra að treysta líkamanum upp á nýtt. Því er eðlilegt að nýgreining og aðlögun að hjartasjúkdómum getið verið þungbær fyrir líðan,“ segir Erla.
Erla segir að það fari eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hvernig sálfræðilegur stuðningur fari fram. Aðalmarkmiðið sé þó að grípa fólk þegar lífið fer svolítið á hvolf eftir veikindi eða þegar veikindi hafa langvarandi áhrif á getu til að taka þátt í lífinu eins og áður.
Enginn fastur tímarammi
Ert þú að hitta sjúklingana oftar en einu sinni?
„Ég er oftast að hitta sjúklinga í eitt til þrjú skipti. Það er enginn fastur tímarammi með lengd milli viðtala og þjónustan er mótuð að þörfum hvers og eins. Hugsunin er að geta gripið fólk þar sem það er statt og hjálpað því að átta sig á hvað snýr upp, hvað snýr niður og hvernig það geti haldið áfram. Ef fram kemur alvarlegri vandi í viðtölum en mér er unnt að sinna innan þess ramma sem ég hef, legg ég mat á einkenni og reyni að vísa málum áfram til sálfræðiþjónustu á heilsugæslu eða geðsviði Landspítala, eftir því sem við á.
Tilvísanir til mín um sálfræðiþjónustu berast helst frá hjúkrunarfræðingum og hjartalæknum af hjartadeild, göngudeild kransæða og göngudeild hjartabilunar. Stundum vísa félagsráðgjafar á mig líka eða starfsfólk af hjartagátt og hjartaskurðdeild. Algengasta ástæða tilvísana er kvíði, depurð og þegar starfsfólk finnur að sjúklingar hafa þörf á auknum stuðningi. Einnig ef fólk er í erfiðum aðstæðum eða aðdragandi veikindanna er bráður og áfallatengdur, eins og til dæmis eftir hjartastopp. Í slíkum tilvikum geta aðstandendur líka fengið viðtöl, til að veita stuðning við því álagi sem getur komið upp hjá þeim,“ segir Erla.
Viðbrögð við veikindum geta verið mjög ólík milli einstaklinga
Spurð hvort fólk bregðist ekki misjafnlega við þeim tíðindum að greinast með hjartasjúkdóm segir Erla:
„Almennt spá aðstæðurnar einar og sér ekki fyrir um líðan í aðstæðum, því hugsun og túlkun fólks hefur líka áhrif á hvaða tilfinningar vakna í aðstæðum. Það truflar fólk mismikið að leggjast inn á sjúkrahús, vera þar í herbergi í návígi við aðra sjúklinga, halda utan um upplýsingagjöf lækna, hjúkrunarfræðinga og annara starfsmanna, dvelja í óvissu um hvað taki við og vera fjarri ástvinum og þægindum eigin heimilis. Fyrir suma geta þessar aðstæður verið mjög yfirþyrmandi.
Langvarandi innlagnir geta verið streituvekjandi og reynt mjög á líðan, einkum ef þær fara samhliða einangrun, líkamlegri vanlíðan, skertri getu til virkni og áhyggjum. Það er eðlilegt að það dragi af fólki við slíkar aðstæður. Með stuðningi sinna nánustu og heilbrigðisstarfsfólks ná flestir að takast á við erfið veikindi. Mikilvægast fyrir góða aðlögun er að fá skýra og faglega upplýsingagjöf um veikindin, finna hlýju og öryggi í aðstæðum, sýna sér og viðbrögðum sínum mildi og skilning, ræða líðan við stuðningsnet sitt, fjölskyldu og vini, eftir því sem við á. Það er í rauninni mikilvægasti stuðningurinn sem fólk áttar sig ekki endilega alltaf á. Síðan stendur sjúklingum til boða að fá sálfræðiviðtöl ef þörf er á frekari stuðningi.“
Þverfaglegt samstarf
Erla segist leggja mikla áherslu á rannsóknir samhliða klíník og þverfaglegt samstarf með hjartalæknum, hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki. Markmið þess starfs er að auka þekkingu á tengslum sálfræðilegra þátta og hjartasjúkdóma og stuðla að þróun fræðsluefnis um sálræn viðbrögð við alvarlegum veikindum.
„Komnir eru út fyrirlestrar á heimasíðu göngudeildar kransæða (www.landspitali.is/hjartaendurhaefing) sem aðgengilegir eru fyrir bæði hjartasjúklinga og aðstandendur þeirra. Einnig er hægt að nálgast bæklinginn „Sálræn viðbrögð við alvarlegum veikindum“ á heimasíðu Landspítala. Við stefnum að áframhaldandi þróun fræðsluefnis því þörfin er mikil fyrir grunnupplýsingar sem allir sjúklingar hafi greiðan aðgang að,“ segir Erla.
