Norski spennusagnahöfundurinn Helene Flood vakti mikla athygli með fyrstu bók sinni Þerapistanum sem hefur verið þýdd á yfir fjörutíu tungumál síðan hún kom út 2019. Helene kom hingað til lands í byrjun mánaðar á vegum íslensks útgefanda síns og sagði Fréttablaðinu frá tildrögum bókarinnar.

„Í fjölskyldunni minni erum við með þann sið að þegar við ferðumst þá hringjum við alltaf þegar við erum komin á áfangastað. Stundum hringir fólk ekki vegna seinkunar á flugi eða eitthvað. Þá upplifi ég stundum þetta litla augnablik þar sem ég er að bíða eftir símtali sem kemur ekki og byrja að hugsa: „Þetta er skrýtið, hann hlýtur að vera kominn, kannski hefur honum seinkað.“ Ég er rithöfundur þannig að ég byrja að ímynda mér sögu og mér finnst þetta augnablik þar sem maður byrjar að ímynda sér hvað gæti hafa gerst, hvað gæti hafa farið úrskeiðis, mjög áhugavert.“

Helene segist hafa fengið mikinn áhuga á þessu augnabliki þegar maður er enn staddur í sínu daglega lífi en byrjar að sjá hversu auðveldlega það gæti farið úr skorðum.

„Síðan hringir manneskjan og þú gleymir öllu saman en á þessu augnabliki þegar þú veist ekki hvað gerðist ertu mjög berskjölduð. Á þessu augnablik sér maður hversu auðveldlega allt gæti farið úr skorðum. Það er á vissan hátt það sem ég vildi gera með bókinni. Að setja fram daglegt líf en sýna svo hvað gerist þegar manneskja hverfur.“

Helene Flood er rísandi stjarna í spennusagnaheiminum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hvarf eiginmanns

Þerapistinn fjallar um sálfræðinginn Söru sem er gift arkitektinum Sigurd. Bókin kom út á íslensku í þýðingu Höllu Kjartansdóttur 2020.

„Þau eru ung hjón á fertugsaldri sem hafa erft hús sem þau eru að gera upp. Eins og gerist held ég oft þegar fólk er að vinna að endurbótum þá er allt staðnað og hjónabandið er að sama skapi líka staðnað. Sigurd fer síðan í bústaðarferð með vinum sínum. Hann hringir í Söru og segir að hann sé kominn á staðinn og allt sé í góðu en svo heyrir hún ekkert meira frá honum. Vinir hans hringja síðan og segja henni að Sigurd hafi aldrei komið. Er þetta lygi eða ekki? Hann segir eitt en þeir segja annað og það er á þessu augnabliki sem daglegt líf fer úr skorðum,“ segir Helene.

Helene Flood er sjálf sálfræðingur og hefur starfað sem slíkur samhliða ritstörfum sínum.

„Ég er áfallasálfræðingur að mennt, ég vinn við að rannsaka áföll og hef mikinn áhuga á því hvernig áföll hafa áhrif á það hvernig við sjáum heiminn. Þannig langaði mig mjög mikið til að komast inn í huga manneskju sem lendir í því að eiginmaður hennar hverfur skyndilega.“

Þerapistinn er fyrsta skáldsaga Helene Flood.
Kápa/Benedikt

Ólík en krefjandi störf

Hvernig er að blanda þessum tveimur mjög ólíku störfum saman?

„Það er áhugavert að þú skulir spyrja að því af því það er nokkuð sem ég er að kljást við á hverjum degi. Ég er mjög upptekin og er í tveimur vinnum sem eru báðar mjög krefjandi. En þegar það virkar þá gengur það mjög vel og ég fæ að virkja tvær ólíkar hliðar á sjálfri mér. Rithöfundarstarfið er mjög einrænt starf á meðan vísindarannsóknir fara að mestu fram í teymisvinnu. Það er hjálplegt fyrir mig að hafa þetta tvennt en auðvitað er alltaf mjög mikið að gera.“

Helene starfaði sem klínískur sálfræðingur við upphaf ferilsins en segist ekki hafa gert það í um áratug. Hún segir það starf hafa haft áhrif á skrif hennar í Þerapistanum en er ekki viss um að hún gæti starfað sem klínískur sálfræðingur samhliða ritstörfum.

„Ég held að eitt af því sem gerir sálfræðistofuna svo hentuga fyrir þessa gerð skáldskapar sé hugmyndin um að þetta sé staðurinn þar sem maður eigi að vera fullkomlega heiðarlegur. Ekkert sem þú segir þar yfirgefur herbergið, það er bara á milli þín og sálfræðingsins. Fólk getur opinberað allar sínar skammarlegustu hliðar en hins vegar þá vitum við að fólk lýgur oft í sálfræðimeðferð. Við reynum oft að sýna sálfræðingnum okkar bestu hliðar, sem segir okkur mikið um það hversu miklar félagsverur við erum,“ segir hún.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég skrifi svona af því ég er sálfræðingur eða hvort ástæða þess að ég sé sálfræðingur og rithöfundur sé að ég hafi áhuga á hinum myrkari hliðum mannlífsins. Kannski er það bæði ástæða þess að ég valdi þá starfsgrein og líka af hverju ég byrjaði að skrifa.

Myrku hliðar mannlífsins

Spurð um hvort reynsla hennar sem sálfræðingur hjálpi henni við að skrifa spennusögur segir Helene:

„Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég skrifi svona af því ég er sálfræðingur eða hvort ástæða þess að ég sé sálfræðingur og rithöfundur sé að ég hafi áhuga á hinum myrkari hliðum mannlífsins. Kannski er það bæði ástæða þess að ég valdi þá starfsgrein og líka af hverju ég byrjaði að skrifa.“

Helene sendi nýlega frá sér sína aðra skáldsögu, Elskhugann, sem einnig hefur vakið mikla athygli. Spurð um hvort velgengni bókanna hafi komið henni á óvart segir hún það hafa verið mikið ævintýri.

„Þegar maður skrifar þá á maður alltaf daga þar sem manni líður eins og allt sé að ganga vel og getur leyft sér að dreyma. Síðan koma auðvitað dagar þar sem manni líður öðruvísi. En jafnvel þegar ég lét mig dreyma ímyndaði ég mér aldrei að þetta myndi verða svona,“ segir hún.