Áður en ég breytist er nýjasta bók ljóðskáldsins Elíasar Knarrar og hans þriðja á íslenskri tungu. Elías er fæddur og uppalinn í Galisíu þar sem hann hóf skáldaferilinn áður en hann fluttist til Íslands fyrir rúmum áratug. Bókinni er lýst sem „svaðilför í ljóðum þar sem höfundurinn keppist við að bjarga minningum“ en ritunarsaga hennar er einkar áhugaverð.
„Þetta er mjög löng og flókin saga sem á heima í ýmsum víddum raunveruleikans. Það gerðist leiðinlegt atvik sem hafði mjög neikvæð áhrif á rithöfundahóp og mig. Ég þurfti sem sagt að skapa eitthvað til þess að tjá mig á móti og vildi líka fjalla almennt um samfélagið og mismunun,“ segir Elías yfir tebolla í Gröndalshúsi þar sem hann dvelur oft við skriftir.
Elías hefur vakið mikla athygli í bókmenntaheiminum fyrir framúrstefnuleg ljóð sín en aðferðirnar sem hann notar við að skrifa þau eru ekki síður framúrstefnulegar.
„Það sem ég gerði var að nota spíritisma, ég gerði einhvers konar gjörning fyrir sjálfan mig þar sem ég breyttist eða tók þessu verkefni að breytast í „trommumanninn“ sem stígur inn í kirkjugarð samfélagsins eða tilverunnar, boðar heimsendi og vekur það fólk sem er ekki unnt eða kleift eða leyft að lifa heldur láta sig bara dreyma. Þetta er eins og í apokalypsis eða heimsendabókmenntum alls staðar í heiminum, eða að minnsta kosti í abrahamískum trúarbrögðum, þegar himnar opnast og þau sem voru dáin öðlast eilíft líf, hvort sem það er í helvíti eða í himnaríki,“ segir hann.
Leiðsögumaðurinn Gröndal
Í ljóðum sínum vekur Elías gjarnan upp raddir ýmissa látinna einstaklinga, bæði raunverulegra og skáldaðra. Þeirra á meðal er góðvinur hans, skáldið Benedikt Gröndal, sem lést árið 1907 en þeir Elías eiga sama afmælisdag, 6. október.
„Ef Dante notaði Virgil sem leiðsögumann þá notaði ég Bensa. Hann er einhvern veginn alltaf með mér. Eina látna manneskjan sem ég heimsæki er hann, sem er dálítið sorglegt, af því að ég á líka ættingja,“ segir Elías.
Þú hefur svolítið verið að ræða við Benedikt í gegnum tíðina?
„Já, en ég tala ekki svo mikið við hann lengur. Sem stendur er ég ekki svo tengdur við „svona leiki“. Mér er erfiðara að ná sambandi og fá endurgjöf frá honum.“
Í stað Benedikts steig nýr karakter fram sem rödd í skáldskap Elíasar og birtist nú í fyrsta sinn á prenti.
„Það er dálítið nýtt í bókinni að það er einungis ein manneskja sem stígur upp úr gröfinni. Af því bækur mínar eru svo sem hlaðnar af mismunandi röddum. Það eru margir karakterar eða persónur sem koma fram en hér er aðallega ein kona. Hún heitir eða kallast Evgenía sem þýðir „sú vel borna“ á grísku. En þó hún hafi fæðst fullkomin þá er hún svo gölluð að hún á hvergi heima,“ segir hann.
Trúir ekki á sálina
Eins og Elías nefndi notaðist hann við spíritisma við skrifin í fyrsta skipti en þó ekki spíritisma í þeim skilningi að hann hafi farið á miðilsfund eða í andaglas. Slíkt myndi að öllum líkindum ekki gagnast Elíasi því hann trúir nefnilega ekki á sálina.
„Ég er því miður sálarlaus, þannig að fyrir mér er þetta einungis gjörningur. Ég fór í einhvers konar ham og vissi ekki að hún myndi birtast en ég fór að finna línur og dagbókarbrot og svo fattaði ég að þetta var Evgenía. Þetta er enn flóknara og flóknara af því að Evgenía var einhvers konar flakkari sem rakst á persónu hjá sögum sem Nena Hanson, sem er dóttir Michaël Drake, hripaði niður.“
Michaël Drake er ein af persónum Elíasar, dularfullt ljóðskáld fætt einhvern tíma á bilinu 1441 til 1841, sem hann holdgerði meðal annars á viðburðum Rauða skáldahússins sem haldnir voru á árunum 2017 til 2019.
Er það ekki svolítið þversagnakennt að stunda spíritisma en trúa ekki á sálina?
„Ég fæddist í Nornafirði þannig að ég var ekki í tölvuleikjum þegar ég var unglingur en ég var í spíritisma, þó að ég tryði ekki á sálina. Af því þetta virkaði og það var rosalega spennandi! En þetta er ekkert áhugavert, það væri áhugavert ef einhver myndi stíga fram og segja: Heyrðu, ég þekki þessa Evgeníu!“
Tímaskekkjur og víddaflakk
Spurður um hvaðan titill bókarinnar Áður en ég breytist kemur segir Elías hann meðal annars vísa í dauðann og handanheiminn.
„Fyrst og fremst af því hún Evgenía er farin, í öllum þeim merkingum sem það getur þýtt. Hún er annars staðar og ég vildi ekki að þessi reynsla myndi hverfa.“
Að sögn Elíasar vísa ljóðin einnig í sköpunar- og heimsendasögur og hringlaga eðli tímans.
„Þú veist ekki hvar byrjunin er, ég meina síðasta eða næstsíðasta dagbókarbrotið heitir Byrjun og þegar fyrsta dagbókarbrotinu lýkur þá er sagt „þú færð ekkert/handan við blaðsíðuna!“ Það eru sem sagt tímaskekkjur í bókinni, ekki bara af því Evgenía er tíma- og víddaflakkari, heldur líka til þess að þetta eigi við fleiri kynslóðir,“ segir Elías.