Sæ­mundur Norð­fjörð, hjá Loka kvik­mynda­gerð, kom að myndinni á frum­stigi og á­kvað að halda á­fram sem með­fram­leiðandi eftir að horfið var frá því að taka myndina á Ís­landi. Fram­lag Ís­lands vegur engu að síður þungt þar sem Val­geir Sigurðs­son var fenginn til þess að semja tón­list myndarinnar fyrir til­stilli Sæ­mundar.

„Þessi mynd er ekki gerð fyrir mikinn pening en það er mikil sál í þessu þannig að ég er bara mjög sáttur og stoltur,“ segir Sæ­mundur sem fær nú loksins tæki­færi til þess að sýna Kotungs­ríkið á Ís­landi.

Epísk kvika

Peter Magat leik­stýrir myndinni eftir hand­riti sem írski hand­rits­höfundurinn Ewan Glass stað­færði. „Sam­starfið byrjaði þannig að þau komu hingað með hug­mynd um að gera mynd eftir mjög frægu dans­verki sem heitir Epic og vildu jafn­vel mynda hér og þannig tengdist ég þessu upp­haf­lega.“

Þegar grunn­hug­myndin fór að taka á sig skýrari mynd var á­kveðið að finna sögunni stað í seinni heims­styrj­öldinni. „Þá enduðum við á að skjóta þetta allt í Slóvakíu,“ segir Sæ­mundur um Ís­lands­tenginguna sem þá hafi ó­hjá­kvæmi­lega rofnað.

„Við héldum þó sam­starfinu á­fram og ég út­vegaði þeim Val­geir Sigurðs­son tón­skáld til þess að semja tón­listina fyrir myndina. Þessi tón­list gerir náttúr­lega ansi mikið fyrir myndina og Val­geir var það á­nægður með út­komuna að hann á­kvað að gefa út sér­stakt tón­verk sem heitir Kvika og er byggt á kvik­mynda­tón­listinni.

Rauðir tónar

Valgeir hefur getið sér gott orð sem kvikmyndatónskáld og samdi síðast tónlistina við Héraðið eftir Grím Hákonarson en hefur á árum áður komið að upptökum og gerð tónlistar mynda á borð við Being John Malkovich og Dancer in the Dark. Hann hefur þegar gefið Kviku út, sem sér­stakt tón­verk, raf­rænt á Band­camp.com og Sæ­mundur vonast til þess að sér­stök vínyl­út­gáfa berist til landsins í tæka tíð fyrir frum­sýninguna.

Sænska leikkonan Alicia Agneson og Lachlan Nieboer leika Evu og Jack.

„Þetta er rosa­lega fal­leg plata, rauð. Og er í tak­mörkuðu upp­lagi. 150 ein­tök eða eitt­hvað svo­leiðis. Akkúrat þegar við á­kváðum að gefa hana út byrjaði eld­gosið í Geldinga­dölum. Þetta var bara eins og pantað,“ segir Sæ­mundur hlæjandi um Kvikuna sem greini­lega var ætlað að fá að njóta sín. „Val­geir er flottur,“ heldur Sæ­mundur á­fram og telur réttast að þeir sem vilji tryggja sér ein­tak af plötunni verði á tánum á næstu dögum.

Veiru­höftum léttir

Sæ­mundur segist að­spurður hafa verið ná­lægt því á tíma­bili að yfir­gefa verk­efnið eftir að tökur hér á landi duttu upp fyrir. Aðal­lega vegna þess hversu flókið ferlið var.

„Auð­vitað var þetta mjög erfitt og langt ferli, en ég lærði nú í Tékk­landi og Tékkar eru ekkert ó­líkir Slóvökum og ég kunni vel við þetta fólk og vildi bara hjálpa þeim og þegar upp var staðið þá er ég bara mjög sáttur við út­komuna.“

Aðalleikarar Kotungsríkisins Mark Fleischmann, David Hartl, Klara Mucci, Alicia Agneson og Lachlan Niboer.
Mynd/Aðsend

Kotungs­ríkið var frum­sýnd í Bratislava, höfuð­borg Slóvakíu, í nokkrum flýti vegna styrkja­mála 2019 en al­þjóð­leg út­gáfa hennar fór í dreifingu á því veirunnar ári 2020 og hefur lítið verið sýnd í kvik­mynda­húsum fyrr en núna.

Sæ­mundur segir hana þó, auk Slóvakíu, þegar hafa verið frum­sýnda í Tékk­landi, Þýska­landi, Asíu og Banda­ríkjunum þar sem við­tökur hafi verið góðar. Þá er ný­búið að ganga frá dreifingar­samningum í Bret­landi og hinum Norður­löndunum auk þess sem mikil kynning er fyrir­huguð á kvik­mynda­markaðnum í Cannes.


Kotungsríkið

Malá rísa, eða Kotungsríkið, gerist í þorpi í Slóvakíu undir lok seinni heimsstyrjaldar. Eva er ung kona sem vinnur baki brotnu í einu verksmiðju þorpsins. Þar ræður ríkjum smákóngurinn Bar sem allir eiga sitt undir og hann kúgar jafnt starfsfólkið sem og þorpsbúa.

Jack, ástmaður Evu, gegnir herskyldu en þegar hún sendir honum bréf um örlagaríkan viðburð í lífi þeirra ákveður hann að stinga af til þess að geta stutt ástina sína.

Verksmiðjueigandinn Bar er bölvað óféti sem heldur bæjarbúum í heljargreipum.
Mynd/Aðsend

Hann sætir færis þegar herdeild hans kemur við á vændishúsi sem maddaman Cat rekur í nágrannabænum. Hún er þó ekki öll þar sem hún er séð og að hennar undirlagi gerir andspyrnuhreyfingin herflokknum fyrirsát.

Jack, sem er réttdræpur fyrir liðhlaup, hefur störf við hlið Evu sinnar í hergagnaverksmiðju Bars en málin vandast þegar Bar hyggst kvænast Cat í pólitískum tilgangi en hún aftur á móti rennir hýru auga til Jacks sem veit um þátt hennar í fyrirsátinni á meðan hún veit allt um liðhlaup hans.

Dramatískt uppgjör söguhetjanna er óumflýjanlegt þegar Þjóðverjar missa tökin í stríðinu og þorpið bókstaflega logar í illdeilum. Söguhetjurnar berjast fyrir lífi sínu og þá standa mannleg reisn og sannleikurinn ansi völtum fótum.